fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Pressan

Allt á reiðiskjálfi í Miðausturlöndum eftir uppsögn Bandaríkjanna á kjarnorkusamningnum við Íran – Telur stefna í stríð

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 9. maí 2018 06:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gærkvöldi að Bandaríkin segi upp samningi við Íran um kjarnorkumál en samningnum var ætlað að koma í veg fyrir að Íran geti þróað kjarnorkuvopn. Samningurinn hefur lengi verið þyrnir í augum Trump sem segir þetta versta samninginn sem gerður hefur verið. Trump flutti ávarp í gærkvöldi þar sem hann kynnti þessa ákvörðun sína og nýtti tækifærið til að ráðast harkalega á írönsk stjórnvöld. Óhætt er að segja að ákvörðun Trump hafi hrist vel upp í Miðausturlöndum í gær og hafa margir áhyggjur af stöðu mála í heimshlutanum.

Trump talaði ekki aðeins um samninginn sjálfan heldur ræddi hann einnig um ágengna hegðun Írana í Miðausturlöndum.

Trump hefur lengi krafist þess að samið verði upp á nýtt en ólíklegt verður að telja að það muni gerast. Ef samningar ættu að nást þurfa Íranar að fallast á að draga úr umsvifum sínum og um leið áhrifum í Sýrlandi, Jemen, Írak og Líbanon sem og að hætta tilraunum með langdrægar eldflaugar. Ekki er líklegt að þeir fallist á þetta.

Annar flötur á málinu er að ákvörðun Trump mun styrkja harðlínumenn í Íran sem voru einnig fullir efasemda um samninginn.

Sky-fréttastofan segir að grundvöllur ákvörðunar og afstöðu Trump og stjórnar hans sé líklegast byggð á þeim misskilningi að íranska stjórnin sé veikari en hún virðist og muni hugsanlega missa völdin þegar nýjar efnahagslegar refsiaðgerðir Bandaríkjanna byrja að bíta. Sky bendir á að rétt sé að íranskur efnahagur sé í frjálsu falli og gjaldmiðill landsins sé á hraðri niðurleið. Allt þetta muni harðlínumenn notfæra sér til að berja niður alla andstöðu.

Telja líkur á átökum

Þá má ekki gleyma að ekki er hægt að útiloka að til stríðsátaka komi ef Íranar hefja á ný auðgun úrans og aðra starfsemi sem gerir þeim kleift að þróa kjarnorkuvopn. Ísraelsk stjórnvöld hafa nú þegar tilkynnt að þau muni ekki láta það viðgangast.

Norska ríkisútvarpið hefur eftir Sverre Lodgaard, hjá norsku utanríkismálastofnuninni, að það hafi komið á óvart hversu harðorður og herskár Trump var í ávarpi sínu í gær. Trump sagði Írana fjármagna hryðjuverk, kyndi undir átökum í Miðausturlöndum og hafi drepið mörg hundruð Bandaríkjamenn.

Nils Butenschøn, hjá norsku mannréttindastofnuninni, sagði að ræða Trump hafi minnt á ræðu George W. Bush frá 2002 þegar hann sagði að „allir sem eru ekki í liði með okkur eru á móti okkur“ í stríðinu gegn hryðjuverkum.

Lodgaard sagði að nú megi vænta harðrar stefnu frá Trump gagnvart Íran. Þróun mála varðandi Norður-Kóreu hafi kennt Trump að beita hörðu á móti hörðu því hann trúi að það hafi verið refsiaðgerðir og hótanir um beitingu hervalds sem hafi ýtt við þróun mála á Kóreuskaga en Trump mun funda með Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu á næstunni.

Lodgaard sagði að þegar samningaviðræður hófust við Íran 2013 hafi markmiðið verið að forðast stríð, nú sé Trump búinn að setja stefnuna á stríð.

Arfleifð Obama

Philip Ulrich, sérfræðingur í málefnum Bandaríkjanna og ritstjóri kongressen.com, sagði í samtali við BT að það að Trump hafi ákveðið að hefja refsiaðgerðir gegn Íran strax geri að verkum að Íran hafi enga hvatningu til að standa við JCPOA samninginn um kjarnorkutilraunir landsins.

Samkvæmt samningnum skuldbatt Íran sig til að nota kjarorku eingöngu til friðsamlegra nota. Í staðinn afléttu önnur ríki miklum viðskiptaþvingunum gegn landinu en þær höfðu komið illa við landið.

Ulrich sagði að ef það eigi að skýra ákvörðun Trump með sálgreiningu þá sé ástæðan fyrir samningsrofinu einföld. Það að Obama hafi gert samninginn sé ástæðan fyrir að Trump rifti honum. Samningurinn þyki eitt best heppnaða pólitíska verk Obama og þess vegna vilji Trump losna við hann.

Hann sagði að þær staðreyndir sem Trump segist byggja ákvarðanir sínar á séu gamlar staðreyndir um það sem Íranar gerðu hér áður fyrr en geri ekki lengur. Íran hafi staðið við sinn hluta samningsins en Trump hafi valið að líta framhjá því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Mörg þúsund loftsteinar gætu glatast að eilífu þar sem þeir sökkva niður í ísinn á Suðurskautinu

Mörg þúsund loftsteinar gætu glatast að eilífu þar sem þeir sökkva niður í ísinn á Suðurskautinu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Telja sig hafa fundið skýringuna á dularfullum snúningi Betelgás

Telja sig hafa fundið skýringuna á dularfullum snúningi Betelgás
Pressan
Fyrir 3 dögum

Loftsteinn á stærð við bíl þau rétt framhjá jörðinni – Uppgötvaðist bara tveimur dögum áður

Loftsteinn á stærð við bíl þau rétt framhjá jörðinni – Uppgötvaðist bara tveimur dögum áður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Berst við 4. stigs krabbamein – Yfirmaðurinn pressar á hana að koma aftur til vinnu

Berst við 4. stigs krabbamein – Yfirmaðurinn pressar á hana að koma aftur til vinnu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ert með ofnæmi fyrir hundum? Þá gætirðu líka verið með lítt þekkt kynlífsofnæmi

Ert með ofnæmi fyrir hundum? Þá gætirðu líka verið með lítt þekkt kynlífsofnæmi