Pressan

„Ég vildi meiða hann en ekki drepa hann“

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 11. maí 2018 19:00

Danskir lögreglumenn að störfum

Nú standa yfir réttarhöld í Kaupmannahöfn í máli 33 ára manns sem er ákærður fyrir að hafa reynt að myrða 42 ára mann í Kastrup Center Pub í Kaupmannahöfn á síðasta ári. Samkvæmt ákæruskjali var fórnarlambið slegið margoft í höfuðið og síðan stungið í gagnauga með 9 cm löngum hníf. Fórnarlambið gekk síðan út af barnum en þá elti sá ákærði það og stakk einu sinni í magann og einu sinni í bakið. Fórnarlambið yfirgaf þá staðinn.

Öll atburðarrásin náðist á upptökur eftirlitsmyndavéla. Auðvelt reyndist að bera kennsl á árásarmanninn því hann er mikið húðflúraður. Er með áberandi húðflúr upp eftir hálsinum, á höndum og öðrum fótlegg. Hann hefur játað grófa líkamsárás en neitar að hafa ætlað að drepa fórnarlambið. Hann neitar að hafa stungið fórnarlambið í gagnaugað en játar að hafa stungið það í bak og maga.

Ekstra Bladet segir að fyrir dómi hafi sá ákærði sagt að hann hafi notað sérstaka aðferð þegar hann stakk fórnarlambið til að tryggja að hnífurinn færi ekki of djúpt. Hann sagðist setja þumalfingur á hnífsblaðið en með því tryggi hann að það fari ekki of djúpt. Áverkar veittir með þessum hætti væru ekki banvænir.

Þegar hinn ákærði var spurður hvort hann gæti stýrt því hvar hnífurinn lendir í maga fórnarlambsins játaði hann að geta það ekki enda hafi hann ætlað að stinga fórnarlambið í lærið.

Hann er einnig ákærður fyrir að hafa stungið vin sinn í bakið í Álaborg í apríl á síðasta ári og að hafa slegið hann í andlitið. Hann játaði þessi brot.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Raflost hefst í dag