Pressan

Mikill harmleikur – Fjögur börn og þrír fullorðnir fundust látnir á heimili í Ástralíu

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 11. maí 2018 05:34

Mynd úr safni. Mynd:Wikimedia Commons

Lík fjögurra barna og þriggja fullorðinna fundust á heimili norðvestan við Margaret River í Ástralíu í morgun en það er mjög strjálbýlt svæði. Lögreglan segir að um „hræðilegan harmleik“ sé að ræða. Lögreglan er enn að störfum á vettvangi og hafa sérfræðingar frá lögreglunni í Perth verið sendir á vettvang til aðstoðar staðarlögreglunni.

Samkvæmt fréttum ástralskra fjölmiðla fundust tvö lík fullorðinna utan við húsið en hin fimm líkin inni. Lögreglan fann tvö skotvopn á vettvangi. Ástralskir fjölmiðlar segja að orðrómur sé um að einn hinna fullorðnu hafi myrt börnin og hina tvo fullorðnu og síðan tekið eigið líf. Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta þetta en segir að skotsár hafi verið á sumum líkanna.

Lögreglustjórinn á svæðinu sagði í samtali við News.com.au að auk sérfræðinga í morðrannsóknum frá Perth muni aðrir sérfræðingar lögreglunnar einnig koma að rannsókn málsins. Auk þess hefur prestur lögreglunnar verið kallaður á vettvang til að veita lögreglumönnum og öðrum sálrænan stuðning þar sem aðkoman á vettvangi var hræðileg og hefur haft mikil áhrif á þá sem þurfa að vinna þar við rannsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Raflost hefst í dag