Pressan

Lögreglan vinnur að uppgreftri í skógi – Óttast að þar séu lík sjö stúlkna

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 12. maí 2018 08:00

Kimberly King.

Frá því á mánudaginn hefur hópur lögreglumanna frá bandarísku alríkislögreglunni og lögreglunni í Michigan unnið að uppgreftri í skógi í suðausturhluta Michigan. Ástæðan er að talið er hugsanlegt að þar sé lík Kimberly King grafið en hún hvarf 1979. Hún var þá 12 ára.

Aðalmarkmið lögreglunnar er að finna lík Kimberly en lögreglan telur sig hafa góðar ástæður til að telja að lík fjögurra til sex annarra stúlkna séu grafin á þessu svæði. Bill Dwyer, lögreglustjóri í Warren, sagði í samtali við WJBK sjónvarpsstöðina að lögreglan væri sannfærð um að hún sé að leita á réttum stað.

Lögreglan hefur ekki viljað segja hvaða stúlkur hún telur að séu grafnar í skóginum.

Lík Cindy Zarzycki, 13 ára, fannst nærri þessum stað 2008. Hún hvarf 1986 en þá var hún plötuð til að fara á skyndibitastað. Eftir það sá enginn til hennar. Rannsókn leiddi í ljós að það var faðir unnusta hennar sem hafði nauðgað henni og drepið. Hann vísaði lögreglunni á lík hennar 2008. Hann afplánar nú ævilangan fangelsisdóm. Hann er ekki grunaður um aðild að hvarfi Kimberly King eða annarra stúlkna.

Kimberly var á leið heim til vinkonu sinnar í Warren þegar hún hvarf en hún var í gæslu hjá afa sínum og ömmu. Síðan hefur ekkert til hennar spurst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Raflost hefst í dag