Pressan

Sveppir urðu tveimur börnum að bana í Danmörku

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 17. maí 2018 10:11

Mynd úr safni.

Í október á síðasta ári veiktist 12 manna fjölskylda í Haslev á Sjálandi í Danmörku illilega. Fjölskyldan, foreldrar og 10 börn þeirra, voru flutt á sjúkrahús í skyndingu. Þau sýndu öll merki eitrunar. Tvö börn létust en læknum tókst að bjarga lífum hinna fjölskyldumeðlimanna.

Lögreglan hóf strax rannsókn á málinu og vann frá byrjun út frá þeirri kenningu að fjölskyldan hefði borðað eitraða sveppi sem hún hefði tínt úti í náttúrunni. Bæði faðirinn og elsti sonurinn vísuðu því á bug í samtölum við danska fjölmiðla og þvertóku fyrir að fjölskyldan hefði tínt sveppi og borðað.

Lögreglan tilkynnti í morgun að rannsókn málsins væri lokið og að niðurstaðan væri að sveppir hefðu orðið börnunum að bana. Sveppirnir hefðu verið tíndir úti í náttúrunni og borðaðir af fjölskyldunni.

Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið að lögreglan muni ekki skýra nánar frá hvaða gögn liggja til grundvallar þessari niðurstöðu lögreglunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Raflost hefst í dag