Pressan

Lögreglan leitar enn að morðingja Emilie Meng – Hvað gerðist? – Málið sem Danir geta ekki hætt að brjóta heilann um

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 10. júlí 2018 11:30

Emilie Meng.

Laugardaginn 9. júlí 2016 fór Emilie Meng, 17 ára, út að skemmta sér með vinkonum sínum. Um klukkan 4 að morgni 10. júlí komu þær á lestarstöðina í Korsør á Sjálandi í Danmörku. Þar skildu leiðir því Emilie ætlaði að ganga heim til sín en hún bjó nærri lestarstöðinni. Vinkonurnar tóku leigubíl. Mynd náðist af Emilie í undirgöngum við lestarstöðina. Eftir það sá enginn, nema morðingi eða morðingjar hennar, hana á lífi.

Emilie skilaði sér aldrei heim og ekkert spurðist til hennar. Foreldrar hennar tilkynntu strax um hvarf hennar og lögreglan hóf rannsókn á hvarfinu. Í fyrstu vann lögreglan út frá nokkrum kenningum. Þar á meðal að Emilie hefði látið sig hverfa af fúsum og frjálsum vilja. En ekki leið á löngu áður en lögreglan var þess fullviss að svo væri ekki og að hún hefði orðið fórnarlamb glæps.

Umfangsmikil leit var gerð að henni bæði á landi og í sjó og vötnum og lögreglan ræddi við alla skráða kynferðisafbrotamenn, sem bjuggu í Korsør og nærri, vegna málsins. Lögreglunni bárust margar vísbendingar og rannsóknin var víðtæk. En ekkert skilaði árangri og lögreglan var engu nær og hafði ekki á neinu að byggja þar til á aðfangadag 2016. Þá var maður úti að viðra hundinn sinn við vatn í Borup sem er um 65 kílómetra austan við Korsør. Það tekur um 40 mínútur að keyra þarna á milli.

Emilie sést til hægri á þessari mynd úr eftirlitsmyndavél á brautarstöðinni. Mynd:Danska lögreglan

Við vatnið byrjaði hundurinn að láta undarlega og gelta. Maðurinn stoppaði því við og kannaði málið. Í fjöruborðinu lá lík Emilie. Það staðfesti lögreglan sólarhring síðar. Lögreglan segir að líkið hafi legið svo lengi í vatni að erfitt hafi verið að slá því föstu hvað varð Emilie að bana og hefur ekki skýrt frá hvernig hún lést en líklega býr lögreglan yfir upplýsingum um það.

Lýst eftir tveimur aðilum

Í október á síðasta ári gaf nýtt vitni sig fram við lögregluna. Þetta var ung kona sem sagði að morguninn sem Emilie hvarf, um einni klukkustund eftir að hún sást síðast, hafi hún séð „lítinn eða millistóran ljósan bíl“ við aðrein að Regnemarks Bakke í Borup. Hún sagði að bíllinn hafi verið kyrrstæður og farangursrými hans opið. Við hlið hans hafi karlmaður staðið og virst vera að lyfta þungum hlut.

Lögreglan hafði mikinn áhuga á þessari frásögn enda hafði lík Emilie fundist þarna nærri. Lögreglan lýsti því eftir ökumanni dráttarvélar og bílstjóra bíls sem konan sagðist hafa ekið á eftir þennan morgun. Hvorugur hefur gefið sig fram þegar þetta er skrifað. Lögreglan er ekki viss um að það sem konan sá tengist málinu en vill að vonum rannsaka það ofan í kjölinn.

Hvíti Hyundai bíllinn fyrir utan lestarstöðina. Mynd:Danska lögreglan

Lögreglan lýsti einnig eftir hvítum Hyundai I30 bíl síðasta sumar en slíkur bíll sást við lestarstöðina um það leyti sem Emilie hvarf. Lögreglan hefur ekki upplýst hvort einhver hafi gefið sig fram en hún hefur haldið spilunum nokkuð þétt að sér við rannsókn málsins.

Veit barnaníðingurinn eitthvað um málið?

Margir hafa verið yfirheyrðir með stöðu grunaðs vegna málsins en enginn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Einn þessara er 34 ára karlmaður sem var handtekinn fyrir nokkrum vikum grunaður um að hafa lokkað níu ára stúlku upp í bíl og að hafa síðan nauðgað henni.  Hann situr nú í gæsluvarðhaldi vegna þess máls. BT hefur eftir lögmanni hans að hann eigi von á að skjólstæðingur hans verði fljótlega tekinn af lista yfir grunaða í máli Emilie.

Staðurinn þar sem maður sást bera eitthvað þungt skömmu eftir hvarf Emilie. Mynd:Danska lögreglan

Hann var handtekinn og yfirheyrður vegna máls Emilie en sleppt eftir að rannsókn á bíl hans leiddi ekkert í ljós og auk þess fékkst staðfest að hann var ekki í Korsør þegar Emilie hvarf. Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um þetta við danska fjölmiðla og hefur heldur ekki staðfest að einhverjir séu grunaðir í málinu.

„Bréf til morðingja“

Þegar eitt ár var liðið frá því að lík Emilie fannst birtu móðir hennar og ein besta vinkona, Sarah Hansen, opið bréf á Facebook, bréf til morðingja. Í bréfinu biðla þær til morðingjans um að gefa sig fram.

„Við fórum aftur að leiði Emilie í kirkjugarðinum og enn höfum við ekki fengið svör við spurningum okkar. Hver ertu? Hversu illa leið Emilie á síðustu mínútum sínum? Og ekki síst, af hverju? Af hverju tókst þú hana frá okkur?“

Segir meðal annars í bréfinu sem var birt í heild í Ekstra Bladet.

Málið er því enn óleyst og lögreglan hefur sem fyrr segir lítið látið uppi um stöðu mála og heldur ýmsum upplýsingum þétt að sér en hefur margoft bent á ákveðna staðreynd: Það er einhver þarna úti sem veit hvað kom fyrir Emilie Meng.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Nágranni frá helvíti setti upp viðvörunarkerfi sem aðeins börn heyra í – Börnin þora ekki lengur út úr húsi

Nágranni frá helvíti setti upp viðvörunarkerfi sem aðeins börn heyra í – Börnin þora ekki lengur út úr húsi
Pressan
Í gær

Dularfullt hvarf 18 ára pilts – Sást hann í Kaupmannahöfn í síðustu viku?

Dularfullt hvarf 18 ára pilts – Sást hann í Kaupmannahöfn í síðustu viku?
Pressan
Í gær

„Landráð“ „Skammarlegt“ „Algjör uppgjöf“ – Þess vegna eru Bandaríkjamenn í áfalli eftir leiðtogafundinn í Helsinki

„Landráð“ „Skammarlegt“ „Algjör uppgjöf“ – Þess vegna eru Bandaríkjamenn í áfalli eftir leiðtogafundinn í Helsinki
Pressan
Fyrir 2 dögum

Svíþjóð logar – Ástandið hefur aldrei verið verra á síðari tímum

Svíþjóð logar – Ástandið hefur aldrei verið verra á síðari tímum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Miklir skógareldar í Svíþjóð – Ógna mörgum íbúðarhúsum – Norskar þyrlur koma til aðstoðar í dag

Miklir skógareldar í Svíþjóð – Ógna mörgum íbúðarhúsum – Norskar þyrlur koma til aðstoðar í dag
Pressan
Fyrir 3 dögum

Missti milljónir fylgjenda á Twitter

Missti milljónir fylgjenda á Twitter