fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Pressan

Heil fjölskylda var myrt – Kerfisbundnar aftökur – Börnum var þyrmt

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 8. október 2018 22:20

Fórnarlömbin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í apríl 2016 voru átta manns myrtir í Ohio í Bandaríkjunum. Allt bendir til að fólkið hafi kerfisbundið verið tekið af lífi af kaldrifjuðum morðingja eða morðingjum. Málið er enn óupplýst og lögreglan hefur ekki handtekið neinn vegna þess.

Neyðarvörður: „Þú verður að segja mér hvað er að gerast.“

Konan: „Það er blóð út um allt í húsinu. Mágur minn er í svefnherberginu (ógreinilegt hljóð) og er meðvitundarlaus.“

Neyðarvörður: „Ókei.“

Konan: „Það er blóð út um allt.“

Svona var tilkynningin um málið þegar hringt var í neyðarlínuna klukkan 07.40 að morgni 22. apríl 2016. Konan var þá nýbúin að finna mág sinn, Chris Rhoden, og frænda hans, Gary Rhoden, myrta. Konan var vön að koma á hverjum morgni í húsið, sem er við Union Mill Road í Pike sýslu í Ohio, til að gefa hundunum og kjúklingunum að éta.

Fréttin breiddist hratt út

Fréttin um morðin breiddist hratt út á svæðinu. margir urðu áhyggjufullir og fóru að kanna hvort allt væri í lagi hjá ættingjum og vinum. Einn þeirra er Donald Stone sem ákvað að kanna hvort allt væri í lagi með frænda hans, Kenneth Rhoden.

Neyðarvörður: „911, get ég aðstoðað þig?“

Stone: „Já, ég þarf að fá lögregluna til (ógreinilegt hljóð) 799 Left Fork.“

Neyðarvörður: „Ókei.“

Stone: „Allt þetta sem er í fréttunum. Ég var að finna …. Ég fann frænda minn með skotsár.“

Neyðarvörður: „Ókei, er hann lifandi?“

Stone: „Nei, nei.“

Hreinar aftökur

Fimm til viðbótar fundust myrtir í Pike sýslu þennan dag. Átta voru því myrtir. Sjö þeirra voru fullorðnir en sá yngsti var 16 ára piltur. Fórnarlömbin fundust á fjórum stöðum. Öll koma þau úr sömu fjölskyldunni nema eitt þeirra.

Fórnarlömbin voru:

Christopher Rhoden eldri.

Gary Rhoden 38 ára.

Kenneth Rhoden 44 ára.

Dana Manley Rhoden 38 ára.

Clarence Rhoden 20 ára.

Hanna Rhoden 19 ára.

Chris Rhoden yngri, 16 ára.

Hannah Gilley 20 ára. Hún var trúlofuð Clarence Rhoden.

Þrjú lítil börn fundust ómeidd á morðvettvöngunum.

Í fréttatilkynningu frá saksóknara og lögreglustjóranum í sýslunni kom fram að ekki væri annað að sjá en að um hreinar aftökur hafi verið að ræða. Eftirlifandi úr Rhode-fjölskyldunni var boðin lögregluvernd.

Hrottaleg morð

Það þarf ekki að furða þótt málið sé eitt þekktasta morðmálið í Ohio og þótt víðar væri leitað. Lögreglan hefur ekki enn handtekið neinn vegna málsins en segist sífellt færast nær því að leysa það án þess þó að vilja skýra það nánar.

Eftir stendur samfélag sem leitar svara við fjölda spurninga. Hver myrti fólkið? Af hverju?

Lögreglunni hafa borist um 1.000 ábendingar í málinu. Um 500 yfirheyrslur hafa farið fram og rúmlega 100 sönnunargögn hafa verið skráð. En samt sem áður virðist rannsókninni ekki miða mikið áfram þrátt fyrir að lögreglan segi að hún mjakist í rétta átt.

Í september voru krufningarskýrslur gerðar opinberar. Þær sýna að fólkið var myrt á kerfisbundinn og hrottalegan hátt. Fram kemur að Christopher Rhoden eldri var skotinn níu sinnum. Lík hans var verr útleikið en hin en það bendir til að hann hafi verið eitt fyrsta fórnarlambið. Skotsár á hægri handlegg bendir til að hann hafi reynt að verjast þeim sem skaut hann. Gary Rhoden fannst í sama húsi. Hann var skotinn tvisvar í höfuðið og einu sinni í andlitið. Einu skotanna var hleypt af þétt upp við höfuð hans.

Kenneth Rhoden, sem fannst í húsi í um 5 km fjarlægð frá húsi Christopher og Gary Rhoden, var skotinn einu skoti í hægra augað. Fyrrum eiginkona hans, Dana Manley Rhoden, og tvö börn þeirra, Hanna Rhoden og Chris Rhoden, fundust í sama húsi. Dana var skotin mörgum skotum í höfuðið sem og Chris og Hanna. Fimm daga gömul dóttir Hanna fannst ómeidd í húsinu.

Í þriðja húsinu fannst sonur Dana og Kenneth, Clarence. Hann var í rúminu og hafði verið skotinn til bana þar ásamt unnustu sinni, Hannah Gilley. Á milli þeirra lá sex mánaða sonur þeirra ómeiddur. Fjögurra ára sonur Clarence fannst einnig ómeiddur í húsinu.

Fólkið var allt myrt á skömmum tíma. Af þeim sökum telur lögreglan að fleiri en einn hafi verið að verki og að viðkomandi hafi þekkt til á svæðinu. Einnig telur lögreglan að viðkomandi hafi gert sitt besta til að fela slóð sína.

Nokkrum dögum eftir morðin skýrði lögreglan frá því að hún hefði fundið umfangsmikla marijúanaræktun á tveimur morðvettvanganna. Fólk hefur því velt fyrir sér hvort morðin tengist fíkniefnaheiminum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn
Pressan
Fyrir 3 dögum

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“