fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

Tvö börn dóu í hræðilegu slysi: Saksóknarar varpa ljósi á hrikalegt ráðabrugg föðurins

Ritstjórn Pressunnar
Föstudaginn 16. nóvember 2018 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. apríl árið 2015 létust tvö ung börn í hræðilegu slysi að því er talið var. Börnin, 8 og 13 ára, voru í bílbelti í aftursætinu þegar faðir þeirra missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún endaði ofan í vatni.

Faðirinn, Ali Elmezayen, var með gluggann bílstjórameginn opinn þegar slysið varð og tókst honum að koma sér út úr bifreiðinni. Það sama má segja um konu hans, Rabab Diab, sem einnig komst á þurrt. En börnin voru úrskurðuð látin þegar viðbragðsaðilar náðu til þeirra.

Nú, rúmum þremur árum síðar, telja saksóknarar sig hafa afhjúpað hrikalegt ráðabrugg föðurins og allt hafi þetta verið tilraun til að fá bætur út úr tryggingum.

Þannig er mál með vexti að árin 2012 og 2013 keypti hann nokkrar slysa- og líftryggingar. Þannig átti hann að fá sex milljónir Bandaríkjadala ef einhver innan fjölskyldunnar myndi látast af slysförum. Svona stórar tryggingar eru ekki ókeypis og er talið að Ali hafi þurft að greiða sem nemur tuttugu prósentum af árstekjum sínum fyrir trygginguna, en árslaun hans námu aðeins tæpum 30 þúsund dölum.

Þetta vakti athygli lögreglu í ljósi slyssins árið 2015 og þeirrar staðreyndar að aðstæður til aksturs voru góðar þegar slysið varð. Telja saksóknarar að um skipulagðan verknað hafi verið að ræða en þess er getið í umfjöllun Washington Post að bæði börn hans hafi verið með mikla einhverfu.

Þó að sakskóknarar telji að um morð hafi verið að ræða hefur Ali ekki verið ákærður fyrir það og þykir ólíklegt að svo verði, nema nýjar upplýsingar komi fram. Telja saksóknarar sig ekki hafa nægilegar sannanir í höndunum og ólíklegt að ákæra um morð muni leiða til sakfellingar. Því hefur Ali verið ákærður fyrir önnur brot; meðal annars fjársvik og auðkennisþjófnað sem dæmi. Hann gæti átt yfir höfði sér 40 ára fangelsi.

Eftir slysið sagði Ali að bremsurnar á bílnum, sem var af gerðinni Honda Civic, hafi bilað skyndilega með fyrrgreindum afleiðingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt