fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Pressan

Síðasta steinaldarsamfélagið: Ótrúlegt líf á eyjunni þar sem trúboðinn var drepinn

Ritstjórn Pressunnar
Föstudaginn 23. nóvember 2018 12:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samfélagið á North Sentinel-eyju í Bengal-flóa hefur stundum verið kallað síðasta steinaldasamfélag jarðarinnar. Íbúar þar komust í heimsfréttirnar á dögunum þegar bandaríski trúboðinn John Allen Chau var drepinn þegar hann steig fæti á eyjuna.

John þessi var 26 ára og var hann kominn til North Sentinel til að boða kristna trú. Skömmu eftir að hann steig á land létu eyjarskeggjar rigna yfir hann eitruðum örvum sem urðu honum að bana. Örlög Johns hefðu ekki átt að koma neinum á óvart enda hafa íbúar á eyjunni ekki haft – hvað það viljað hafa – nein samskipti við umheiminn.

Búið á eyjunni í 30 þúsund ár

Örvar, hnífar, spjót, kylfur, axir og steinar eru meðal þeirra vopna sem eyjarskeggjar nota. Þessum vopnum hafa íbúar sveiflað þegar einhver dirfist að koma nálægt eyjunni, hvort sem um er að ræða báta, skip, þyrlur eða flugvélar. Svæðið er þeirra, hefur verið það lengi og íbúar vilja halda því þannig.

Breski vefmiðillinn Mail Online fjallar ítarlega um þessa litlu eyju sem tilheyrir Andaman-eyjaklasanum á vef sínum í dag. Íbúar Sentinel eru í hópi þeirra fáu samfélaga sem eftir eru á jörðinni sem halda sig algjörlega út af fyrir sig. Þar af leiðandi er ekki ýkja mikið vitað um samfélagið; hvaða tungumál þeir tala, hvernig menning þeirra er, hverju þeir trúa eða hversu margir íbúarnir nákvæmlega eru.

En það sem við vitum er meðlimir þessa tiltekna ættbálks hafa búið á eyjunni, sem er 50 ferkílómetrar að stærð, undanfarin 30 þúsund ár að minnsta kosti. Íbúar eru sjálfum sér nægir; þeir veiða villisvín, skjaldbökur, fisk auk þess að tína ber, kókoshnetur og safna hunangi svo eitthvað sé nefnt.

 

Stranglega bannað að fara á eyjuna

John var staðráðinn í að boða íbúum Sentinel kristna trú, með biblíuna eina að vopni. Vinir og aðstandendur hafa talað fallega um hann; sagt hann hafa verið ljúfan og skemmtilegan einstakling með stórt hjarta. En John hefði aldrei átt að stíga fæti á eyjuna. Samkvæmt indverskum lögum er almenningi bannað að heimsækja eyjuna. Voru þau lög sett á til að treysta varðveislu ættbálksins en einnig til að tryggja öryggi þeirra sem hafa áhuga á að heimsækja eyjuna.

Íbúar Sentinel virðast vera við góða heilsu en hvers vegna þeir vilja ekki tengjast umheiminum liggur ekki ljóst fyrir. Miðað við hversu einangraðir þeir eru má ætla að þeir séu útsettir fyrir allskonar pestum og veikindum; flensu, mislingum eða kvefi. Það gæti vel verið að þeir átti sig sjálfir á því. Eða eins og Sophie Grigg, mannfræðingur hjá Survival International, segir:

„Þetta er einn berskjaldaðasti ættbálkur jarðar. Hann (John) hefði getað komið með sjúkdóm sem hefði gert út af við ættbálkinn.“ Sophie bætir við að það yrði ekki bara stórslys fyrir ættbálkinn heldur einnig út frá mannfræðisjónarmiðum.

Sophie bendir á að íbúar Sentinel séu afkomendur Afríkumanna sem yfirgáfu Afríku og héldu til Mið-Austurlanda, Búrma og Indlands fyrir 75 þúsund árum. Íbúar Sentinel séu í raun einu núlifandi beinu afkomendur þessa fólks.

Marco Polo lýsti óhemju grimmu fólki

Íbúar Sentinel hafa alltaf verið varir um sig. Fyrstu skráðu upplýsingarnar um tilraunir aðkomufólks til að heimsækja eyjuna eru um þúsund ára gamlar. Þá reyndu kínverskir og arabískir landkönnuðir að nema land á eyjunni en, líkt og nú, voru þeir hraktir burt með örvum og bogum.

Sjálfur Marco Polo, kaupmaðurinn og landkönnuðurinn, skrifaði um íbúa eyjunnar á 14. öld. Lýsti hann þeim sem óhemju grimmum einstaklingum sem virtust tilbúnir að borða hvern þann sem steig fæti á land. Caesar Frederick landkönnuður sagði árið 1563 að sá sem reyndi að nálgast eyjuna myndi aldrei snúa heim.

Á áttunda áratug liðinnar aldar gerði hópur mannfræðinga tilraun til að ná sambandi við eyjarskeggja. Íbúar skutu örvum í átt að þeim áður en þeir höfðu sig á brott. Fjórum árum síðar var gerð önnur tilraun og þá voru eyjarskeggjum boðnar gjafir, lifandi svín og álpottar þar á meðal. En aftur var svarað með örvum. Skilaboð eyjarskeggja eru skýr: Látið okkur vera, við viljum ekkert með ykkur hafa.

Talið að íbúar séu um 20-40 talsins

Eins og kemur fram hér fremst í greininni hefur samfélagið á Sentinel-eyju stundum verið kallað síðasta steinaldasamfélagið. Það er samt kannski ósanngjarnt að kalla þá steinaldarmenn enda búa þeir yfir miklu meiri kunnáttu og þekkingu en maðurinn sem var uppi á steinöld.

Enginn veit með vissu hversu margir íbúarnir eru. Árið 2011 kom leiðangur úr öruggri fjarlægð auga á 15 einstaklinga en tíu árum áður, rétt eftir aldamót, var talið að íbúarnir væru um 40 talsins. Líklega hleypur fjöldinn á nokkrum tugum, kannski hundruðum.

Mannfræðingar óttuðust margir að flóðbylgjan sem reið yfir um jólin 2004 hefði gert út af við ættbálkinn. Talið er að íbúar hafi fundið vel fyrir skjálftanum, áttað sig á því að flóðbylgja væri á leiðinni og flúið lengra inn í land. Engum virðist allavega hafa orðið meint af því íbúar skutu örvum í átt að flugvél sem flaug yfir svæðið nokkrum dögum síðar.

Það er vonandi að enginn reyni að feta í fótspor Johns á næstunni enda hafa mannfræðingar lagt mikla áherslu á að varðveisla þessa einstaka samfélags verði tryggð. Talið er að um 100 ættbálkar, sambærilegir þeim sem er á North Sentinel-eyju, séu til í heiminum í dag. Meðal þeirra má nefna Yanomami-ættbálkinn í Brasilíu og Ayoreo Totobiegosode-ættbálkinn í Bólivíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Ökumaður í hörmulegu bílslysi í Flórída á ekki von á góðu

Ökumaður í hörmulegu bílslysi í Flórída á ekki von á góðu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Leyniskyttan sem setti heimsmet skýrir frá – Svona langan tíma tók þetta

Leyniskyttan sem setti heimsmet skýrir frá – Svona langan tíma tók þetta
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Klikkaðasta hugmyndin sem nokkur hefur nokkru sinni fengið“ – Gæti bjargað okkur í þriðju heimsstyrjöldinni

„Klikkaðasta hugmyndin sem nokkur hefur nokkru sinni fengið“ – Gæti bjargað okkur í þriðju heimsstyrjöldinni
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Krísa af stærstu gerð“

„Krísa af stærstu gerð“