fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Í skjóli HM hækkar rússneska ríkisstjórnin skatta og hrindir umdeildum umbótum á ellilífeyrisaldri í framkvæmd

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 21. júní 2018 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

HM er í algleymingi þessa dagana, ekki síst í Rússlandi þar sem keppnin fer fram. En hugsanlega munu margir Rússar vakna upp við vondan draum þegar lokakeppninni lýkur þann 15. júlí. Í skjóli HM hefur ríkisstjórnin komið ýmsum umdeildum málum sínum í gegn. Þetta á að létta á ríkissjóði en um leið kemur þetta niður á almenningi.

Skömmu áður en rússneska landsliðið spilaði opnunarleikinn gegn Sádí-Arabíu í síðustu viku lagði ríkisstjórnin lokahönd á tillögu um að hækka virðisaukaskattinn úr 18 prósentum í 20. Einnig á að hækka lífeyrisaldurinn mikið.

„Það er auðveldara að stela brauðinu þegar leikrit er í gangi.“

Sagði Kirill Martynov, ritstjóri óháða dagblaðsins Novaja Gazeta.

Þetta er í fyrsta sinn síðan á þriðja áratugnum sem átt er við lífeyrisaldurinn í Rússlandi. Hann er ekki hár miðað við önnur iðnríki eða 55 ár fyrir konur og 60 ár fyrir karla. En á undanförnum áratugum hefur meðalaldur Rússa hækkað mikið. Um 1990 var hann 57 ár hjá körlum en er nú tæp 67 ár og 77 ár hjá konum. Þetta hefur aukið útgjöld lífeyrissjóðs ríkisins.

Samkvæmt nýju tillögunni verður lífeyrisaldurinn hækkaður í áföngum og verður orðinn 65 ár fyrir karla frá 2028 og 63 ár fyrir konur frá 2034.

Margir hafa mótmælt þessu og rúmlega tvær milljónir manna hafa skrifað undir mótmælaskjal. Í Novosibirsk var farin mótmælaganga gegn tillögunni og verkalýðsfélög, stjórnarandstaðan og kommúnistaflokkurinn hafa boðað mótmæli.

Þetta hefur væntanlega ekki komið ráðamönnum í Kreml á óvart og því hefur Vladímír Pútín, forseti, haldið sig til hlés til að ekki sé hægt að beina gagnrýni að honum. Hann hefur margoft sagt að ekki verði hróflað við lífeyrisaldrinum. Það er því Dmitrij Medvedev, forsætisráðherra, sem er í eldlínunni og verður að svara fyrir þetta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt