fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

„Landráð“ „Skammarlegt“ „Algjör uppgjöf“ – Þess vegna eru Bandaríkjamenn í áfalli eftir leiðtogafundinn í Helsinki

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 17. júlí 2018 06:46

Pútín og Trump á göngu fyrir nokkrum árum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, funduðu í Helsinki í Finnlandi í gær og ræddu hin ýmsu mál. Á sameiginlegum fréttamannafundi forsetanna að fundi loknum sagði Trump að hann sæi enga ástæðu til að trúa að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á úrslit bandarísku forsetakosninganna 2016 og sagði að Pútín hefði þvertekið fyrir þetta.

Þetta sagði Trump þrátt fyrir að hans eigin dómsmálaráðuneyti hafi á föstudaginn tilkynnt um ákærur á hendur 12 nafngreindum starfsmönnum rússnesku leyniþjónustunnar vegna meintrar íhlutunar þeirra í kosningarnar. Þá hafa þingnefndir ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi blandað sér í kosningarnar til að hafa áhrif á þær og skaða framboð Hillary Clinton sem barðist um forsetastólinn við Trump.

Orð Trump hafa vakið hörð viðbrögð í Bandaríkjunum, óvenjulega hörð, fólks úr röðum demókrata og það sem sætir kannski mestum tíðindum frá repúblikönum og ekki bara óbreyttum flokksmönnum heldur áhrifamönnum innan flokksins sem forðast að jafnaði að gagnrýna Trump. Þá hafa stjórnendur leyniþjónustustofnana, bæði núverandi og fyrrverandi, gagnrýnt forsetann sem og fyrrum samstarfsmenn Barack Obama, forvera Trump á forsetastóli. Það hefur vakið reiði og undrun fólks að Trump treysti Pútín betur en bandarískum leyniþjónustum. Ummæli forsetans hafa verið sögð allt frá því að vera skammarleg til þess að vera föðurlandssvik.

Paul Ryan. Mynd:Wikimedia Commons

Paul Ryan, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, tjáði sig um ummæli Trump og sló því föstu að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna.

„Forsetinn verður að viðurkenna að Rússar eru ekki bandamenn okkar.“

Sagði hann og lagði áherslu á að Rússar væru enn fjandsamlegir „grundvallargildismati og hugmyndafræði Bandaríkjanna“.

Hörð viðbrögð frá John McCain

John McCain, öldungadeilarþingmaður úr repúblikanaflokknum, sagði fréttamannafund Trump með Pútín vera „hneykslanlegustu framkomu bandarísks forseta í manna minnum“.

Sagði hann í yfirlýsingu og bætti við:

„Það er erfitt að meta það tjón sem einfeldni Trump, sjálfselska, rangt mat á gildismati og samkennd með einræðisherrum veldur. En það er ljóst að leiðtogafundurinn í Helsinki var hörmuleg mistök.“

McCain sagði freistandi að segja niðurstöðuna vera tilkomna vegna reynsluleysis og lélegs undirbúnings forsetans.

John McCain. Mynd:Wikimedia Commons

„En þetta voru ekki misheppnuð tvít frá nýliða í stjórnmálum. Þetta var meðvitað val forseta sem virðist harðákveðinn í að láta villu sína um að eiga í góðu sambandi við stjórn Pútíns verða að veruleika . . . Enginn forseti hefur áður lagst svona lágt á aumkunarverðari hátt fyrir framan harðstjóra.“

Sagði hann og vísaði í að Pútín sé samsekur „um slátrun á sýrlenskum almenningi“, að hann hafi brotið alþjóðlega sáttmála, hafi virt fullveldi nágrannaríkja að engu og ráðist á „lýðræðislegar stofnanir um allan heim“.

Fleiri þung orð féllu

Lindsay Graham, öldungadeildarþingmaður úr repúblikanaflokknum, hefur yfirleitt varið Trump en sá sig tilneyddan í gær til að minna forsetann á að sú staðreynd að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar sé ekki það sama og að þeir hafi starfað með framboði Trump en Trump hefur sífellt blandað þessu tvennu saman.

„Rússland blandaði sér í málin og reynir enn. Ég hef ekki séð neinar sannanir fyrir samvinnu en nægar sannanir fyrir rússneskri íhlutun. Slæmur dagur fyrir Bandaríkin.“

Will Hurd, fulltrúadeildarþingmaður úr repúblikanaflokknum og fyrrum starfsmaður leyniþjónustunnar CIA, tvítaði í gær að hann hefði á ferli sínum oft séð rússneska útsendara ráðskast með menn:

„En ég hefði aldrei trúað að forseti Bandaríkjanna væri einn þeirra.“

Newt Gingrich, fyrrum þingmaður repúblikana hefur verið einn helsti málsvari þeirra sem eru lengst til hægri hvað varðar stefnu Trump en honum var greinilega nóg boðið í gær og sagði orð Trump vera „hans stærstu mistök á forsetastóli“ og „að þetta yrði að leiðrétta – strax“.

Leyniþjónustumenn brugðust einnig við

Dan Coats, sem fundar daglega með Trump fyrir hönd bandarískra leyniþjónustustofnana og kynnir honum helstu málefni, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann ítrekað að ekki leiki nokkur vafi á að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna.

John Brennan, sem var yfirmaður CIA á valdatíð Barack Obama, dró ekki úr lýsingu sinni á framferði Trump og sagði það vera „ekkert minna en landráð“.

„Orð Trump voru ekki aðeins heimskuleg. Hann var algjörlega í vasa Pútín. Ættjarðarvinir úr repúblikanaflokknum: Hvar eruð þið?“

Spurði hann á Twitter.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, lýsti eftir afstöðu repúblikana til orða Trump:

„Hann tekur orð KGB fram yfir fólkið hjá CIA. Forsetinn tekur það sem hentar honum best framfyrir það sem er best fyrir öryggi Bandaríkjanna.“

Adam Schiff, þingmaður demókrata í fulltrúadeildinni, sagði í samtali við CNN að allir þeir repúblikanar sem nú þegja þunnu hljóði séu samsekir um þessa „uppgjöf bandarískra hagsmuna gagnvart Rússlandi.“

Michael FcFaul, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu, kom hugsanlega með bestu spurningu dagsins í tvíti:

„Var það eitthvað sem Trump lét Pútín ekki í té í dag?“

Ekki Ameríka fyrst, heldur Trump fyrst

Almennt er hægt að segja að demókratar telji að Trump hafi svikið ættjörð sína fyrir framan Pútín og allan heiminn. Þetta hafi hann gert því að hann er uppteknari af sjálfum sér en landi sínu. Þessari skoðun deila einnig margir repúblikanar með demókrötum.

Eins og að ofan greinir féllu mörg þung orð eftir fund leiðtoganna en nú er spurningin hvort þetta muni hafa einhvern eftirmála í Bandaríkjunum? Munu fleiri repúblikanar nú snúast gegn Trump? Það er forsenda þess að hægt sé að bola honum úr embætti þar sem demókratar eru fáliðaðir á þingi þessi misserin. Ómögulegt er að spá fyrir um hvort svo fari en ljóst er að Trump ýtti mörgum repúblikönum endanlega frá sér með orðum sínum í gær.

Svo er auðvitað hægt að velta fyrir sér hvort það sem var sagt og gert í Helsinki í gær sé bara upphafið á nýrri bandarískri utanríkisstefnu. Stefnu sem heimurinn hefur aldrei áður séð neitt í líkingu við?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn
Pressan
Í gær

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hvað verður um heilann úr OJ Simpson?

Hvað verður um heilann úr OJ Simpson?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ráðagóðir menn björguðu sér með aðstoð pálmablaða

Ráðagóðir menn björguðu sér með aðstoð pálmablaða
Pressan
Fyrir 3 dögum

Í þessu landi seljast fleiri fullorðinsbleiur en barnableiur

Í þessu landi seljast fleiri fullorðinsbleiur en barnableiur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ný rannsókn bendir til hugsanlegrar lækningar á HIV

Ný rannsókn bendir til hugsanlegrar lækningar á HIV