fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Pressan

Trump dregur í land með ummæli sín: Líktist gísl sem var neyddur til að játa syndir sínar

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 18. júlí 2018 07:53

Hefur hann stundað kerfisbundin skattsvik?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump líktist helst gísl sem var dreginn inn til að játa syndir sínar fyrir framan upptökuvélar sjónvarpsstöðva. Þannig lýsti Gloria Borger, stjórnmálaskýrandi CNN, fréttamannafundi Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í gærkvöldi þar sem hann ræddi um leiðtogafundinn með Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, í Helsinki. Á fréttamannafundinum í gær reyndi Trump að koma sér út úr þeim ógöngum sem hann kom sér í með ummælum sínum á fréttamannafundi með Pútín að fundinum loknum.

Þá sagði Trump að hann tryði Pútín frekar en bandarískum leyniþjónustustofnunum um meinta íhlutun Rússa í bandarísku forsetakosningarnar 2016. Þetta vakti upp mikla reiði og áhyggjur í Bandaríkjunum, bæði meðal repúblikana og demókrata eins og lesa má um í ítarlegri umfjöllun DV um málið.

Í gær sagði Trump að hann hefði ekki meint það sem hann sagði í Helsinki. Hann hefði einfaldlega gleymt einu „ekki“ í setningunni. Hún hefði átt að vera svohljóðandi:

„Ég sé enga ástæðu til að það hafi ekki verið Rússland.“

Margir fréttaskýrendur segja að Trump hafi greinilega verið undir þrýstingi og það hafi sést á honum á fréttamannafundinum í gær. Hann hafi aldrei þessu vant þurft að bakka og segja hluti sem ganga þvert á það sem hann sagði á mánudaginn.

Mikill þrýstingur var strax á Trump í kjölfar ummæla hans og samflokksmenn hans gagnrýndu hann harðlega og héldu því áfram í gær. Paul Ryan, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, og Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, höfðu uppi harða gagnrýni á forsetann og var staðan orðin sú að hann var að missa pólitískan stuðning sinn í Washington.

Bandaríkjamenn taka því illa að lítið sé gert úr löggæslu- og leyniþjónustustofnunum landsins og hvað þá þegar forseti landsins gerir það. Ummæli Trump í Helsinki voru því ekki einhver smávægileg mistök sem er bara hægt að skauta yfir.

Á fréttamannafundinum í gær sat Trump við borð með pappíra fyrir framan sig og leiðrétti eigin ummæli frá Helsinki og sagðist fallast á niðurstöður bandarískra leyniþjónustustofnana um íhlutun Rússa í forsetakosningarnar.

Demókratar finna blóðlykt

Óhætt er að segja að demókratar finni blóðlykt eftir ummæli Trump og fullyrðingar hans um að hann hafi gleymt að setja „ekki“ inn í setninguna á fréttamannfundinum breyta engu þar um. Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sagði í gær að „leiðrétting“ forsetans komi 24 klukkustundum of seint. Hann segir að Trump hafi sýnt veikleika sinn með því að ganga ekki á Pútín um málið.

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, tók í sama streng í gær og sagði að tilraun Trump til að útskýra umdeild ummæli sín „kalli enn meiri skömm yfir þjóð okkar“. Hún sagði Trump hafa sýnt veikleika sinn og sanni að Rússar hafi eitthvað á hann, persónulegt, fjárhagslegt eða pólitískt.

Þögn repúblikana er æpandi

Í kjölfar „leiðréttingar“ Trump á ummælum sínum í Helsinki fjaraði gagnrýni repúblikana á hann út en við tók æpandi þögn að mestu. Þeir gagnrýna forsetann ekki lengur eftir leiðréttingu hans en hann baðst ekki afsökunar á ummælum sínum.

Svo virðist sem repúblikanar fallist á skýringar Trump og nokkrir þingmenn flokksins hafa sagt að þeir séu ánægðir með að Trump hafi útskýrt mál sitt. Þeir eru þar með, varlega, að segja að þeir séu sáttir við að Trump hafi reynt að takast á við þann vanda sem hann kom sér sjálfur í.

Marco Rubio, þingmaður frá Flórída, sagðist fagna skýringum Trump en gæti ekki sagt til um hvað forsetinn hafi haft í hyggju eða hvað hann hafi ætlað að segja en nú sé mikilvægt að horfa fram á veginn. Rob Portman, þingmaður frá Ohio, hafði gagnrýnt Trump en segist nú tilbúinn til að grafa stríðsöxina og fagnar skýringum Trump á orðum sínum en segist þó frekar hafa viljað að forsetinn hefði sagt þetta fyrir framan Pútín og heiminn á mánudaginn.

Svo ótrúlega vildi til eftir ummæli Trump í Helsinki að Fox sjónvarpsstöðin, sem fylgir honum nær alltaf nær gagnrýnislaust að málum, var gagnrýnin á hann en sú gagnrýni fjaraði út í gær eftir útskýringar Trump.

Andstæðingar Trump segja hann vera enn laskaðri pólitískt eftir útskýringar eða leiðréttingu gærdagsins en flestir telja þó að honum hafi tekist að „stöðva blæðinguna“.

Þingmenn repúblikana eru hikandi við að leggja til atlögu við Trump vegna mikils stuðnings kjósenda við hann en enginn forseti úr röðum repúblikana hefur notið meiri stuðnings kjósenda á þessum tímapunkti eftir embættistöku. Það væri því erfitt pólitískt fyrir repúblikana að reyna að hrófla við forsetanum sem á greinilega traustan hóp stuðningsmanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí

Varpa fram athyglisverðri kenningu um hamfararigninguna í Dúbaí
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana

Kvikmyndafyrirtæki með 21 Óskarsverðlaun á ferilskránni leggur upp laupana
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn

Hinir einu sönnu síamstvíburar: Kvæntust systrum og eignuðust yfir 20 börn
Pressan
Fyrir 3 dögum

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“

6 ára stúlka bjargaði fjölskyldunni frá bruna – „Vaknaðu mamma“