fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2019
Pressan

Galnar samsæriskenningar sem reyndust hárréttar

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 5. nóvember 2018 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er enginn skortur á samsæriskenningum, allt frá því að geimverur sæki fólk á nóttunni í að Guðni forseti tilheyri eðlufólki.  Oftast er þetta tóm þvæla. Það eru þó til dæmi um hreint út sagt galnar kenningar sem síðar kom í ljós að voru hárréttar.

MK-Ultra

Tilraunirnar úr þáttunum vinsælu Stranger Things hefur verið líkt við MK Ultra.

Margar samsæriskenningar snúast um bandarísku leyniþjónustuna CIA. Þessi kenning gekk út á að CIA hefði prófað að gefa fólki eiturlyf, þar á meðal ofskynjunarlyfið LSD. Frekar vafasöm kenning.

Árið 1995 voru svo birt skjöl sem sýndu fram á að þetta var í raun gert. Verkefnið hét MK-ULTRA og var sett á laggirnar af CIA árið 1953. Rannsóknunum lauk að mestu árið 1964 en verkefnið var fjármagnað allt til ársins 1973. Hundruð sjálfboðaliða, frá bæði Bandaríkjunum og Kanada, var gefið LSD, amfetamín, MDMA og ofskynjunarsveppi. Tilgangurinn var að athuga hvort það væri hægt að heilaþvo fólk eða fá það til að segja sannleikann. Einn lést vegna eitrunaráhrifa. Þess má geta að Ken Kasey, höfundur bókarinnar One Flew Over the Cuckoo‘s Nest, var MK-ULTRA sjálfboðaliði þegar hann var í Stanford-háskóla.

Þeldökkir vísvitandi smitaðir

Það eru til ótal samsæriskenningar sem snúast um sjúkdóma, ein kenning gekk út á að Bandaríkjastjórn hefði vísvitandi smitað þeldökka Bandaríkjamenn með lífshættulegum sjúkdómi. Það var gert árið 1932 í Macon-sýslu í Alabama, tilraunin var þó ekki gerð af CIA heldur bandarískum heilbrigðisyfirvöldum. Íbúar voru boðaðir í læknisskoðun þar sem þeir voru sprautaðir með sárasótt, alls voru 339 smitaðir og fylgst með 201 öðrum til samanburðar.

Menn sem voru smitaðir af sárasótt sem börn.

Rannsóknin stóð til ársins 1972 þegar blaðamenn komust á snoðir um rannsóknina, þá höfðu meira en 100 manns látist af völdum sárasóttar.

Hrun FL Group

Vilhjálmur Bjarnason

Það voru margir sem héldu því fram fyrir hrun að ekki væri allt með felldu innan íslensku bankanna, enn fleiri sögðust hafa sagt það eftir hrun. Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir og þingmaður á árunum 2013-2017, var hluthafi í FL Group fyrir hrun. Árið 2005 mætti Vilhjálmur í Silfur Egils og setti stóra spurningu við 3 milljarða millifærslu úr FL Group til Lúxemborgar. Vilhjálmur hélt áfram að spyrja erfiðra spurninga næstu ári og í mars 2008 lagði hann fyrir stjórnina 8 spurningar um ýmis kaup félagsins. Sagði Vilhjálmur að hann hefði fengið aðeins „geðvonskuleg svör“ frá stjórnarformanni FL Group.

Töldu margir að Vilhjálmur væri ruglaður og að samsæriskenningar hans væru aðeins til þess fallnar að rýra traust almennings á fyrirtækinu. FL Group, síðar Stoðir, tapaði  67,3 milljörðum króna árið 2007 og tæplega 60 milljörðum á fyrri hluta ársins 2008. Fyrirtækið óskaði eftir greiðslustöðvun 29.september 2008. Vilhjálmur fór fram á bætur eftir hrun.

Aðgerð Pappírsklemma

Vísindamenn frá Þýskalandi í Bandaríkjunum árið 1947.

Það eru fáir hópar í heiminum jafn hataðir og nasistar, þá erum við að tala um alvöru nasista sem sögðu Heil Hitler í staðinn fyrir Hæ. Nasistar voru háþróaðir miðað við aðrar þjóðir þegar kom að stríðstólum og settust margir vísindamenn þaðan að í Bandaríkjunum eftir stríð, var það aðeins kenning að það væri annað en tilviljun. Í lok síðari heimstyrjaldarinnar, þegar Hitler var dauður og Þýskaland var í rústum, þá setti Bandaríkjastjórn af stað Aðgerð Pappírsklemmu, Operation Paperclip, sem var beinlínis með það markmið að finna alla bestu vísindamenn nasista og fara með þá til Bandaríkjanna til að nýta þekkingu þeirra til að ná hernaðarlegu forskoti á Sovíetríkin. Skipti engu hversu mikla ábyrgð nasistarnir báru á Helförinni og morðum á saklausu fólki, ef þeir voru tilbúnir að vinna fyrir Bandaríkjamenn.

Wernher Von Braun. Mynd/Getty

Þess má geta að einn vísindamannanna var Wernher von Braun, majór í SS, sem hjálpaði Bandaríkjamönnum að komast til að tunglsins… sem er reyndar enn ein samsæriskenningin.

Eitrað áfengi

Áfengi hellt niður í Bandaríkjunum á bannárunum. Mynd/Getty

Segja má að bannárin séu frekar misheppnaður tími í sögunni. Eins og við öll vitum er áfengi alls ekki hollt, í byrjun 20. aldar var áfengi mikill skaðvaldur og vildu því margir einfaldlega banna það. Það var gert, en í stað þess að verða friðsælt og edrú samfélagið gerði bannið bara illt verra. Glæpir urðu daglegt brauð, þá sérstaklega í Bandaríkjunum upp úr 1920 þar sem bannið varð vatn á myllu mafíunnar, og fólk fór að drekka alls kyns viðbjóð til að þess að finna fyrir áhrifum. Leggja þurfti marga inn á sjúkrahús vegna eitrunar og upp kom sú kenning að yfirvöld væru að eitra fyrir þeim sem fengu sér í glas.

Bandaríkjastjórn gerði ýmislegt til að koma í veg fyrir að fólk bryti lögin, ein af þeim var að vísvitandi eitra áfengi sem var í geymslu. Þessi aðgerð kom ekki í veg fyrir neitt og þegar áfengisbannið var lagt af 1933 höfðu rúmlega 10 þúsund manns látist af völdum eitraðs áfengis.

Aðgerð Norðurskógar

Fídel Castro. Mynd/Getty

Bandaríkjastjórn hataði Fidel Castro og stjórn hans á Kúbu frá því um 1960 þangað til Castro lést árið 2016. Bandaríkin voru með mikil ítök á Kúbu þangað til Castro og félagar gerðu byltingu og þjóðnýttu verksmiðjur og eigur Bandaríkjamanna á Kúbu. Það var lengi kenning að Bandaríkjastjórn og CIA hefði reynt að ráða hann af dögum og hefði ætlað að búa til atburðarrás sem til að gefa Bandaríkjunum afsökun til að ráðast á Kúbu. Sú kenning reyndist rétt og kallaðist Aðgerð Norðurskógar, Operation Northwoods.

John F. Kennedy Bandaríkjaforseti 1961-1963.

Fram kom í skjölum sem komu fyrst fyrir augu almennings í þætti CNN árið 1998 að vangaveltur voru um hvernig ætti að fara að því. Var stungið upp á að sökkva bandarísku skipi og kenna Kúbu um, eða granda farþegaflugvél. John F. Kennedy, þáverandi Bandaríkjaforseti, hafnaði tillögunum og ekkert varð úr innrásinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hún sleppti því að skoða símann fyrir svefninn: Þetta eru þær fjórar breytingar sem hún fann fyrir

Hún sleppti því að skoða símann fyrir svefninn: Þetta eru þær fjórar breytingar sem hún fann fyrir
Pressan
Fyrir 2 dögum

16 þúsund vilja láta reka kennarann: „Algjörlega ömurlegt. Hann svaraði 13 á 3 mínútum!“

16 þúsund vilja láta reka kennarann: „Algjörlega ömurlegt. Hann svaraði 13 á 3 mínútum!“