fbpx
Föstudagur 19.apríl 2019
Pressan

Hvarf úr gistingu hjá vinkonu sinni – dularfullt mál Briönnu Denison og óhugnaðurinn sem rannsóknin afhjúpaði

Ritstjórn Pressunnar
Miðvikudaginn 7. nóvember 2018 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrjár ungar vinkonur í borginni Reno í Nevada-fylki fóru saman á rokktónleika og gistu síðan heima hjá einni þeirra. Brianna Denison, 19 ára gömul, svaf í sófanum hjá vinkonu sinni þessa nótt. Um morguninn var hún horfin úr húsinu.

Þetta var í janúar 2008. Þegar hinar tvær vinkonurnar fóru á fætur tóku þær eftir því að Brianna var horfin. En hún hafði skilið eftir farsímann sinn og handtösku með peningaveski og snyrtivörum. Hún hafði skilið eftir skóna sína og yfirhöfn – bókstaflega allt. Hún hafði farið allslaus út. Þetta var undarlegt. En þegar vinkonurnar sáu lítinn blóðblett á koddanum sem hún hafið sofið á urðu þær fyrst skelkaðar fyrir alvöru og höfðu samband við móður Briönnu og lögregluna.

Var numin á brott

Brianna var dóttir einstæðrar móður og það hafði alltaf verið gott samband á milli þeirra. Erfiðleikar í fjölskyldunni þjöppuðu þeim saman: þegar Brianna var aðeins sex ára lést faðir hennar. Bróðir hennar var þá ungabarn. Brianna varð upp frá þessu ákaflega ábyrgðarfullt barn og dugleg að hjálpa móður sinni. Milli þeirra myndaðist afar traust samband sem hélst fram á unglingsár. Brianna stóð sig vel í skóla og kvöldið sem hún gisti hjá vinkonu sinni í Reno var hún í vetrarfríi frá námi sínu í sálfræði í Santa Barbara City College.

Móðirin fékk alla fjölmiðla á svæðinu í lið með sér og lýst var víðsvegar eftir Briönnu. Móðirin kom sjálf fram í sjónvarpi og talaði til dóttur sinnar, lofaði henni að ekki yrði gefist upp á leitinni þar til hún væri fundin.

Lögreglan lagði frá upphafi mikinn þunga í rannsóknina. Hún fann erfðaefni af ókunnugum aðila á hurðarhúninum á útidyrunum þar sem stúlkurnar höfðu sofið um nóttina. Blóðið á koddanum sem Brianna hafði sofið á reyndist vera úr henni og á koddaverinu var einnig að finna bitför. Væntanlega hafði blóðið komið úr skrámu sem hlaust af átökum við árásarmanninn – en lögreglan taldi algjörlega öruggt á þessum tímapunkti að Brianna hefði ekki yfirgefið húsið af fúsum og frjálsum vilja.

 Tvær aðrar árásir sama manns

En lengi vel gerðist ekkert í leitinni að Briönnu. Árás á aðra stúlku sem komst lífs af frá mannræningjanum varpaði hins vegar nýju ljósi á málið. Um það bil mánuði áður en Brianna hvarf hafði 22 ára gömul stúlka, sem var erlendur námsmaður, verið numin á brott af skólasvæði háskólans í Reno, sem var aðeins nokkrum götum frá húsinu þar sem Brianna hafði sofið nóttina sem hún hvarf.

Árásarmaðurinn réðst á stúlkuna aftan frá og tók fyrir vit hennar. Hann dró hana út í pallbíl og nauðgaði henni þar. Síðan lét hann hana lausa. Hann harðbannaði henni að horfa framan í sig og því náði hún aldrei að sjá andlitið. Hún gat hins vegar gefið greinargóða lýsingu á ýmsu öðru: hún var til dæmis viss um að þetta væri hvítur karlmaður, orðfæri hans var á þann veg að hann virtist ekki vel menntaður og hann hafði breiða fingur (sem benti til að hann væri þéttvaxinn). Stúlkan gat ennfremur komið með svo greinargóða lýsingu á bílnum að lögreglan gat fundið út með nokkurr nákvæmni hvernig bíll þetta var: Toyota Tacoma pallbíll, annaðhvort árgerð 2005 eða 2006. Gallinn var sá að slíkir bílar voru algengir í borginni.

Ennfremur sagðist stúlkan hafa séð barnaskó á gólfinu í bílnum. Þegar maðurinn hafði lokið sér af tók hann nærbuxurnar hennar og hélt þeim eftir hjá sér.

Síðast en ekki síst skildi árásarmaðurinn eftir lífsýni á stúlkunni sem lögreglunni tókst að láta greina: lífsýnið reyndist vera úr sama manni og lífsýni á hurðarhúninum á húsinu þar sem Brianna hafði gist nóttina sem hún hvarf.

Ljóst var að lögreglan leitaði rauðnauðgara. Það vakti mikinn ótta um örlög Briönnu en einnig þá von að hún gæti verið á lífi þar sem árásarmaðurinn hafði sleppt þessu fórnarlambi.

Eftir að tilkynningar frá lögreglunni um þessa árás og uppgötvanir henni tengdar höfðu birst gaf annað fórnarlamb sig fram. Ráðist hafði verið á þessa konu í október en hún ekki viljað kæra þar sem hún vildi forðast þá óþægilegu athygli sem því fylgdi. Hún gat hins vegar ekki lengur leynt vitneskju sinni þegar hún áttaði sig á að það sem hún hafði gengið í gegnum tengdist hvarfi Briönnu. Ólíkt Briönnu hafði þessi kona séð andlit árásarmannsins og gat gefið góða lýsingu á því. Hún varð fyrir árásinni í bílastæðahúsinu á háskólasvæðinu þar sem maðurinn hafði numið hina stúlkuna brott. Hann lagði hana niður á jörðina, hélt byssu við höfuðið og nauðgaði henni.

Hún gaf svo greinargóða lýsingu af andlitinu að lögreglan gat látið teikna og birta þessa mynd af manninum:

Þessu til viðbótar tók maðurinn líka nærbuxur stúlkunnar með sér. Lögreglan þóttist nú viss um að sami maður hefði nauðgað þessum tveimur stúlkum og ætti sök á hvarfi Briönnu.

Allt kapp var nú lagt á að finna þennan nauðgara og mannræningja. Lögreglan bar saman erfðaefni þúsunda lífsýna sem hún átti tiltæki við þau sem hún hafði af árásarmanninum en ekkert þeirra passaði.

Það höfðu greinilega átt sér stað þrjár mjög alvarlegar kynferðislegar árásir á mjög litlu svæði á stuttum tíma. Málið vakti mikla skelfingu. Ungar stúlkur í hverfinu héldu sig margar innandyra og sóttu til dæmis ekki tíma í háskólanum, en þær sem voru á ferli voru afar varar um sig. Sala á skotvopnum og piparúða í borginni stórjókst.

Lögreglan fékk alls 3000 menn til að afhenda lífsýni til rannsóknar en reynt var að taka sýni af öllum sem líktist myndinni af hinum eftirlýsta hið minnsta. Þeir voru alltaf að leita að þessum eina sem segði nei við beiðninni, því það væri væntanlega sá seki. En allir sem lögreglan hafði samband við reiddu fúslega fram lífsýni og ekkert þeirra passaði við lífsýnið af glæpamanninum hættulega.

Lík Briönnu finnst

Það var tæplega mánuður liðinn þegar maður átti leið fótgangandi um iðnaðarsvæði í Reno og kom að líki. Hann hafði samband við lögreglu. Fljótlega kom í ljós að líkið af Briönnu. Það voru þung spor lögreglumanna heim til móður Briönnu að færa henni hin hryllilegu tíðindi. Síðar sagði hún að það eina sem hefði verið gott við þetta hefði verið að vita hvað kom fyrir dóttur hennar en vera ekki að velta því fyrir sér mörgum árum síðar hvað hefði hent hana.

Briönnu hafði verið nauðgað og hún kyrkt með kvenmannsnærbuxum. Tvær kvenmannsnærbuxur fundust skammt frá líkinu en hvorug þeirra tilheyrðu Briönnu. Hún hafði því verið kyrkt með nærbuxum annarrar stúlku. Kom í ljós að aðrar nærbuxurnar voru af vinkonu Briönnu sem hún hafði gist hjá; hafði morðinginn auðsjáanlega tekið þær úr nóttina sem hann nam Briönnu á brott.

Rannsóknin var enn hert. Meira en 40 rannsóknarlögreglumenn rannsökuðu fjöldann allan af vísbendingum. En þó að lögreglan væri búin að safna svona miklu af gagnlegum ábendingum um þennan morðingja og nauðgara þá gerðist ekkert nýtt í rannsókninni mánuðum saman.

Það var svo í nóvember, tíu mánuðum eftir að Brianna hvarf, að einn rannsóknarlögreglumannanna rak augun í sérsæða vísbendingu: Kona ein sagðist hafa fundið nærbuxur af annarri konu í pallbíl kærastans síns. Þessi vísbending hafði ekki skorið sig sérstaklega úr haug vísbendinga á sínum tíma en núna vakti þetta sérstaklega athygli lögreglumannsins – vakti honum hugboð.

Maðurinn hét James Michael Biela og ökuskírteini hans fannst í rafrænum gagnagrunnum. Það sló lögreglumennina hvað myndin af honum var lík myndinni sem teiknuð hafði verið af árásarmanninum eftir lýsingu fórnarlambs hans.

Sönnunargögnin hlaðast upp gegn hinum grunaða

Lögreglan hafði samband við Biela og bað hann um að koma í viðtal vegna morðrannsóknar. Honum virtist mjög brugðið í símanum en féllst á að hitta lögregluna. Það vakti grunsemdir lögreglunnar að hann skyldi ekki spyrja neitt nánar út í um hvað þessi rannsókn snerist.

Þegar Biela mætti á stöðinni og lögreglumaðurinn heilsaði honum með handabandi tók hann eftir því að Biela var með breiða fingur alveg eins og eitt fórnarlambið hafið lýst honum. Löreglumaðurinn byrjaði spjallið við hann á léttum nótum, um íþróttir og þess háttar. En skyndilega sagði upp úr þurru: „Heyrðu, ég er að rannsaka morðið á Briönnu Denison.“ Við þetta varð Biela afar taugaóstyrkur og svitinn spratt fram á honum. Lögreglumaðurinn sagði: „Heyrðu, þetta er mjög einfalt, okkur vantar bara lífsýni frá þér til að finna DNA og málið er dautt.“ – En James Biela sagði nei, hann ætlaði ekki að láta þá fá lífsýni. Hins vegar ætti lögreglan að tala við kærustuna hans, hún gæti staðfest að hann hefði verið heima þegar glæpurinn átti sér stað.

En kærastan veitti honum enga fjarvistarsönnun. Hins vegar staðfesti hún fyrri framburð sinn um að hún hefði fundið nærbuxur af annarri konu í bifreið kærastans. Barnaskórnir í bílnum voru hins vegar af syni hennar – og hans!

Lögreglan tók lífsýni af drengnum og bar saman við lífsýnin sem höfðu náðst af hurðarhúninum á útidyrahurð hússins þar sem Brianna hafði gist síðustu nóttina sem hún lifði. Niðurstöðurnar voru þær að drengurinn væri sonur þess sem átti lífssýnið á hurðarhúninum. Með öðrum orðum: Lífsýnið á hurðarhúninum var úr James Michael Biela.

Sönnunargögnin höfðu hlaðist upp gegn Biela og þó að hann neitaði ávallt sök var afar fátt sem studdi sakleysi hans. James Michael Biela var fundinn sekur um morð, nauðgun og mannrán. Hann var dæmdur til dauðarefsingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Ein lengsta aparóla heims slitnaði með skelfilegum afleiðingum

Ein lengsta aparóla heims slitnaði með skelfilegum afleiðingum
Pressan
Í gær

Ríkasti maður Kína: „72 tíma vinnuvika er gjöf“

Ríkasti maður Kína: „72 tíma vinnuvika er gjöf“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Katie Boumann átti stóran þátt í fyrstu myndinni af svartholi – Í kjölfarið fóru netverjar að efast um verk hennar

Katie Boumann átti stóran þátt í fyrstu myndinni af svartholi – Í kjölfarið fóru netverjar að efast um verk hennar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Í mál við mömmu og pabba því þau hentu klámsafninu

Í mál við mömmu og pabba því þau hentu klámsafninu