fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

Jayme Closs er á lífi: Foreldrarnir myrtir og henni rænt – Bjargað þremur mánuðum síðar

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 11. janúar 2019 09:01

Jayme Closs.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heldur magnaðar fréttir bárust frá Wisconsin í Bandaríkjunum í gærkvöldi þegar greint var frá því að Jayme Closs, þrettán ára stúlka sem numin var á brott þann 15. október síðastliðinn, hafi fundist á lífi.

Málið vakti eðlilega mikinn óhug enda fundust foreldrar stúlkunnar látnir sama dag og hún hvarf. Þeir höfðu verið skotnir til bana.

Jayme lá aldrei undir grun um aðild að morðunum á foreldrum sínum en þrátt fyrir mikla leit, þúsundir vísbendinga og yfirheyrslur yfir grunuðum einstaklingum átti lögregla erfitt með að komast áfram með málið.

Útidyrahurðin á heimilinu hafði verið skotin upp þennan örlagaríka dag þegar lögreglumenn mættu á vettvang. Þá barst neyðarlínunni dularfullt símtal úr síma Jayme í þann mund sem morðin voru framin. Ekkert tal heyrist á upptökunni en neyðaróp heyrðust í bakgrunninum. Þegar lögreglumenn mættu á svæðið var Jayme á bak og burt en foreldrarnir í blóði sínu á heimilinu.

Í tilkynningu sem lögreglan í Barron, heimabæ stúlkunnar, sendi frá sér í gærkvöldi kemur fram að Jayme hafi fundist á lífi í gær og einstaklingur sem grunaður er um aðild að morðunum og ráninu á Jayme sé í haldi. Minneapolis Star greinir frá því að Jayme hafi tekist að flýja úr klóm mannræningjans og láta vita af sér. Hún er sögð hafa verið illa til reika og auðsýnilega vannærð.

Svo virðist vera sem Jayme hafi verið haldið fanginni á svæði hundrað kílómetra norður af Barron. Á umræddu svæði séu kofar og gistiskálar og tókst Jayme að láta nágranna vita af sér.

Kristin Kasinkas, kennari og íbúi á svæðinu, segir að nágranni sinn sem hún kannaðist við hafi verið úti að labba með hundinn sinn um fjögur leytið síðdegis í gær. Hún hafi bankað á dyrnar en við hlið nágrannans stóð ung stúlka sem síðar reyndist vera Jayme. „Þetta er Jayme Closs! Hringdu á neyðarlínuna“ hefur Kristin eftir nágranna sínum.

Jayme dvelur nú á sjúkrahúsi en frekari upplýsingar hafa ekki verið gefnar um málið, hvorki um hver grunaður mannræningi er eða hvert ástand Jayme er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt