fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Pressan

Íranska leyniþjónustan undirbjó morð og árásir í Bandaríkjunum

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 26. janúar 2019 10:00

Ghorbani og Doostdar Íranskir spæjarar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á undanförnum árum hafa yfirvöld í nokkrum Evrópuríkjum komið upp um ráðagerðir írönsku leyniþjónustunnar í álfunni. En það er ekki aðeins í Evrópu sem íranskir leyniþjónustumenn hafa verið virkir því þeir hafa einnig unnið hörðum höndum í Bandaríkjunum. Einn þeirra er Majid Ghorbani, 59 ára, sem starfaði árum saman á persneskum veitingastað í Santa Ana í Kaliforníu. Þar afgreiddi hann fólk og rétti því hrísgrjón og kebab yfir afgreiðsluborðið. Hann var auðþekkjanlegur á þykku gráu yfirvararskegginu en hann var samt ekki sú manngerð sem fólk tengir við njósnir og pólitísk átök ríkja heims. Það tók því enginn eftir honum þegar hann drakk kaffi á Starbucks í Costa Mesa og ræddi við Ahmadreza Mohammadi Doostdar, 38 ára, eða þegar þeir ræddust við fyrir utan stórmarkað á Long Beach. Doostdar var þá nýkominn aftur til Bandaríkjanna eftir margra ára dvöl í Íran.

En þeir félagar vissu ekki að bandarískir leyniþjónustumenn fylgdust með fundum þeirra þar sem þeir voru grunaðir um að starfa á vegum klerkastjórnarinnar í Íran. Þeir áttu að afla upplýsinga um samfélög gyðinga í Bandaríkjunum sem og íranskan andspyrnuhóp, MEK, sem hefur lengi barist fyrir stjórnarskiptum í Teheran og nýtur stuðnings Donalds Trump og ríkisstjórnar hans. Ghorbani og Doostdar áttu að koma þeim upplýsingum, sem þeir öfluðu, til Írans svo „íranska ríkisstjórnin gæti ráðist á þessa hópa“ segir í ákæruskjaldi á hendur tvímenningunum sem voru handteknir á síðasta ári.

Á meðan bandarískir leyniþjónustumenn fylgdust grannt með þeim félögum sóttu þeir fundi hjá MEK í New York og Washington. Þeir tóku myndir af fundargestum og skráðu nöfn þeirra hjá sér. Þeir tóku einnig myndir af miðstöð gyðinga í Chicago og á milli Bandaríkjanna og Íran til að koma upplýsingunum í réttar hendur. Bandaríska alríkislögreglan hleraði samtöl Ghorbani og Doostdar að minnsta kosti einu sinni en þá sagði Ghorbani frá síðasta MEK-fundi sem hann hafði sótt.

„Ég tók nokkrar myndir og aflaði upplýsinga um þá og marga þingmenn sem þeir vinna með. Ég er búinn að undirbúa pakka en hann er ekki alveg tilbúinn,“ sagði Ghorbani samkvæmt dómskjölum.

Málið kom mörgum Írönum í Irvine á óvart og hefur vakið ótta meðal margra. Fólk er varkárara en áður og gætir vel orða sinna þegar rætt er um klerkastjórnina. Margir óttast einnig að stríð kunni að brjótast út.

Ekki er alveg ljóst hvernig Doostdar og Ghorbani kynntust. Doostdar flutti ungur að árum frá Bandaríkjunum til Kanada og kom sjaldan til Bandaríkjanna. Ghorbani kom til Bandaríkjanna frá Íran um miðjan tíunda áratuginn og starfaði alla tíð á sama veitingastaðnum. Lögreglan telur að þeir hafi kynnst þar. Veitingastaðurinn var einnig fundarstaður MEK og samkvæmt ákæruskjalinu njósnaði Ghorbani um þessa fundi og laumaði sér í raðir MEK.

Ruhollah Khomeini
Leiddi írönsku byltinguna 1979.

Skiptu um lið

MEK voru áður herská samtök sem voru á hryðjuverkalista Bandaríkjanna allt þar til 2012. Samtökin studdu Ayatollah Ruhollah Khomeini í byltingunni 1979 en eru ósátt við þá stefnu sem stjórn landsins tók í kjölfar byltingarinnar. MEK blés því til uppreisnar sem ekki gekk upp og hrökkluðust liðsmenn samtakanna þá úr landi og í útlegð. Næstu 20 árin áttu þeir skjól hjá Saddam Hussein í Írak og sá hann um að útvega samtökunum vopn.

Áhrif MEK hafa verið lítil til þessa en hins vegar eiga þau góðan stuðningsmann, John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump. Hann studdi MEK áður en hann var gerður að þjóðaröryggisráðgjafa og áður en samtökin voru tekin af hryðjuverkalista Bandaríkjastjórnar. Eftir að Bolton komst í Hvíta húsið hafa áhrif MEK aukist, en Bolton leynir ekki þeirri skoðun sinni að skipta þurfi um stjórn í Íran. Wall Street Journal skýrði nýlega frá því að Bolton hafi í september beðið varnarmálaráðuneytið að leggja fram tillögur að hernaðaraðgerðum gegn Íran. Þetta gerði hann í kjölfar árásar nærri sendiráði Bandaríkjanna í Bagdad í Írak.

Ekki bara í Bandaríkjunum

Það er ekki bara í Bandaríkjunum sem liðsmenn MEK hafa verið skotmörk írönsku leyniþjónustunnar. Í desember var tveimur írönskum diplómötum vísað frá Albaníu eftir að upp komst um áform þeirra um að myrða félaga í MEK. Þýska lögreglan handtók íranskan diplómata síðasta sumar en hann er talinn tengjast áætlun um að gera sprengjuárás á ráðstefnu MEK í Villpinte í útjaðri Parísar. Diplómatinn var handtekinn og framseldur til Frakklands eftir að dómstóll kvað upp úr með að hann nyti ekki friðhelgi stjórnarerindreka þar sem hann væri staddur utan Austurríkis, þar sem hann starfaði.

Í Danmörku ætlaði íranska leyniþjónustan að myrða liðsmenn í andspyrnuhreyfingunni ASMLA, sem berst gegn stjórnvöldum í Teheran, í haust. Þá var stórum hluta Danmerkur lokað af lögreglunni í margar klukkustundir og lágu nær allar samgöngur niðri. Taldi leyniþjónustan að útsendarar Írana ætluðu að láta til skara skríða þann dag.

Hollensk stjórnvöld segja að Íranir hafi staðið á bak við morðin á tveimur hollenskum ríkisborgurum af írönskum ættum 2015 og 2017. Annar þeirra var háttsettur í ASMLA.

Allt þetta varð til þess að nýlega hertu aðildarríki ESB stefnu sína í garð Írans og settu tvo nafngreinda íranska leyniþjónustumenn á hryðjuverkalista ESB sem og hluta af leyniþjónustu landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Lögreglan skýrir frá óhugnanlegum upplýsingum varðandi morð

Lögreglan skýrir frá óhugnanlegum upplýsingum varðandi morð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið
Pressan
Fyrir 3 dögum

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra

Elon Musk sakar Ástrali um ritskoðun: „Hrokafullur milljarðamæringur,“ segir ráðherra
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sérfræðingurinn segir að þetta eigir þú að borða á kvöldin ef þig langar að byrja daginn á góðum hægðum

Sérfræðingurinn segir að þetta eigir þú að borða á kvöldin ef þig langar að byrja daginn á góðum hægðum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig
FréttirPressan
Fyrir 4 dögum

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?