fbpx
Föstudagur 19.apríl 2019
Pressan

Sá fjölskyldu sína myrta aðeins sjö ára gamall og var neyddur í stríð: „Svona lagað hverfur aldrei, þetta er morð á sálina“

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 12. febrúar 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á bernskuárunum upplifði hinn súdanski Emmanuel Jai meiri hremmingar heldur en margir gera á allri sinni lífsleið. Emmanuel er einn hinna svokölluðu týndu stráka frá Súdan, hóps ungra munaðarlausra flóttamanna sem flúðu frá Súdan í kjölfar borgarastyrjaldar þar árið 1987.

Emmanuel var aðeins sjö ára gamall þegar móðir hans og systkini voru myrt og hófst stuttu síðar þjálfun hans til að gerast hermaður. Að eigin sögn missti hann hundruð vina og ættingja auk þess að vera í hinu daglega lífi vopnaður byssu sem hann gat varla haldið á. Þetta var á tímum lengstu samfelldu borgarastyrjaldar í sögu Afríku og var kölluð önnur súdanska borgarstyrjöldin.

Á örlagaríkum degi varð Emmanuel vitni af því þegar jafnaldri sinn stytti sér aldur. Þá ákvað Emmanuel að hann gæti ekki meir og ákvað hann þá næst að beina skotvopninu að sjálfum sér.

Þá kom í ljós að byssan stóð á sér og í kjölfar þessa atviks var hann viss um að örlögin hefðu verið þarna að verki svo hann gæti lifað af til að segja sögu sína. Með þessar martraðarkenndu minningar var hann staðráðinn í því að stöðva aðra sem voru rændir æsku sinni með sama hætti og hann upplifði.

„Við vorum eins og uppvakningar“

Á dögunum ákvað Emmanuel að rifja upp harmsögu sína við fréttamiðilinn Mirror, en árið 2009 gaf hann út bókina War Child: A Child Soldier’s Story. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir frásögn sína af lífi sínu sem ungur hermaður, sem neyddur var til að taka fólk af lífi til þess að komast sjálfur lífs af. Í bókinni og jafnframt viðtölum veitir hann engan afslátt af upprifjunum sínum.

„Ég sá hausa reglulega fjúka og fólk deyja í kringum mig,“ segir Emmanuel í samtali við fréttamiðilinn. „Við vorum eins og uppvakningar og gátum ekkert gert á meðan fólk var alls staðar öskrandi og biðjandi um hjálp.“

Um tuttugu þúsund drengir flúðu frá fjölskyldum sínum í Suður-Súdan, sumir ekki eldri en sex ára til þess að komast undan herskyldu og þrældómi. Ferðalagið tók þá mörg ár en meira en helmingur þeirra lést áður en þeir komust í flóttamannabúðir í Kenía.

Fann hugarró í tónlistinni

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna eru enn hátt í 300 þúsund börn sem eru neydd til að berjast til að komast undan hungursneyð og árásum vígamanna.

„Það á ekkert sjö ára barn að þurfa að upplifa stríðsátök,“ segir Emmanuel. „Svona lagað hverfur aldrei, þetta er morð á sálina.“

Þá segir Emmanuel að hefði hann aldrei átt þátt í morðum á saklausu fólki, væri hann trúlega ekki á lífi í dag.

Í dag er Emmanuel 39 ára gamall og hefur átt farsælan feril sem rappari í rúman áratug. Að hans sögn hefur tónlist og sköpunargleði veitt honum mikla hugarró og hjálpað honum að hugsa fram á við auk þess að takast á við þessar erfiðu minningar.

Emmanuel á þrjú börn og er enn staðráðinn í því að gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir að önnur börn gangi í gegnum sambærilega lífsreynslu.

„Þetta er saga sem mig langaði aldrei að segja neinum, en í dag vil ég vera hluti af lausninni,“ segir Emmanuel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Ein lengsta aparóla heims slitnaði með skelfilegum afleiðingum

Ein lengsta aparóla heims slitnaði með skelfilegum afleiðingum
Pressan
Í gær

Ríkasti maður Kína: „72 tíma vinnuvika er gjöf“

Ríkasti maður Kína: „72 tíma vinnuvika er gjöf“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Katie Boumann átti stóran þátt í fyrstu myndinni af svartholi – Í kjölfarið fóru netverjar að efast um verk hennar

Katie Boumann átti stóran þátt í fyrstu myndinni af svartholi – Í kjölfarið fóru netverjar að efast um verk hennar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Í mál við mömmu og pabba því þau hentu klámsafninu

Í mál við mömmu og pabba því þau hentu klámsafninu