fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

Morðið hefur ásótt íbúana í litla norska þorpinu í áratugi – Dugði tveggja daga forskot morðingjans?

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 14. mars 2019 07:00

Marie-Louise Bendiktsen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Morðinginn fékk tveggja daga forskot. Það dugði honum til að sleppa undan armi laganna en þó ekki að eilífu. 21 ári síðar telur lögreglan að hún hafi haft uppi á manninum sem myrti Marie-Louise Bendiktsen í júlí 1988 í Sjøvegan í Troms í Noregi.

Miðvikudaginn 15. júlí gerðist það sem þótti óhugsandi í svona litlu byggðarlagi en þar búa tæplega 1.000 manns. Kona var myrt. Óhætt er að segja að myrkrið hafi lagst yfir litla byggðarlagið og varpað skugga á það næstu tvo áratugina og rúmlega það. Morðið var upphafið að einni stærstu DNA-rannsókn sögunnar í Noregi.

Klukkan sex um morguninn var tilkynnt um eld í húsi Marie-Louise að Lensmannsjordet 1. Eldtungurnar sáust vel úr fjarlægð. Ekki var vitað hvort einhver væri í húsinu. Þeir sem komu fyrstir á vettvang önduðu léttar þegar þeir sáu að bíll Marie-Louise var ekki við húsið, hún hlaut að vera að heiman.

En nokkrum klukkustundum síðar, þegar búið var að slökkva eldinn, kom í ljós að lík var í svefnherbergi Marie-Louise. Það var líkið af Marie-Louise. Þetta var að vonum mikið áfall fyrir byggðarlagið enda þekktu allir alla.

Enn meira áfall

Það var síðan föstudaginn 17. júlí sem stóra áfallið reið yfir byggðarlagið. Þá lá niðurstaða krufningar á líki Marie-Louise fyrir. Hún hafði ekki látist í eldsvoðanum. Hún hafði verið stungin 13 sinnum áður en eldur var borinn að húsinu.

Hún var ekkja, eiginmaður hennar hafði látist af völdum hjartaáfalls 1994. Hún var bakveik og átti erfitt með að sinna ýmsu og greiddi því hælisleitendum, sem voru í þorpinu, fyrir að aðstoða sig við garðvinnuna. Hún var vel liðin meðal íbúa þorpsins og ekki var vitað að neinn hefði átt eitthvað sökótt við hana.

Þorpið fylltist skyndilega af fréttamönnum og um 60 lögreglumenn voru sendir á vettvang til að rannsaka málið. Spurningarnar sem leituðu á fólk voru meðal annars: Hver gerði þetta? Tekst lögreglunni að leysa málið?

Morðinginn var jú með tveggja daga forskot.

Um 2.400 manns voru yfirheyrðir, ítarleg vettvangsrannsókn var gerð og gengið var hús úr húsi. En þetta skilaði litlu, lögreglan var litlu nær. Lögreglan lýsti eftir eiganda kveikjara sem fannst á „áhugaverðu svæði“. Þá fundust nokkrar tölur í húsinu en ekki var vitað hver átti þær. Lýst var eftir eiganda jakka. Þá fannst innkaupanet, merkt Marie-Louise, í miðbænum.

Grunsemdir lögreglunnar

Orðrómur og slúður fór að berast út í þorpinu. Lögreglan var sögð hafa sérstakan áhuga á hælisleitendunum og hvort einhver þeirra gæti tengst morðinu.

Marie-Louise var sögð hafa verið varkár og hafi ekki hleypt hverjum sem er inn í hús sitt. Hún var vön að kíkja alltaf út í gegnum eldhúsgluggann áður en hún opnaði dyrnar sem voru alltaf læstar. Það voru þær líka þegar kviknaði í húsinu. En kunnugir vissu að á bakhliðinni voru dyr sem sáust ekki frá götunni og næstu húsum. Dyrnar voru opnar þegar lögreglan kom á vettvang eftir að tilkynnt var um eldinn.

Lögreglan rannsakaði skófatnað allra hælisleitenda í þorpinu og sjónir hennar beindust einnig að þekktum vímuefnaneytendum. En lögreglan gaf aldrei neitt út um að hún hefði einhvern sérstakan grunaðan um morðið.

Óöryggi

Íbúar í þorpinu voru óöryggir og hræddir. Það gat vel verið að morðingi gengi laus þeirra á meðal. Skyndilega fór fólk að læsa útidyrunum. Ekkjur byrjuðu að setja stígvél látinna eiginmanna sinna fyrir framan útidyrnar til að láta líta út fyrir að karlmaður væri í húsinu.

En það sem lögreglan hélt vandlega leyndu þar til í september var að hún hafði fundið sterk gögn í málinu og taldi sig geta leyst málið. Þessi gögn voru lífsýni sem fundust á líki Marie-Louise.

Marie-Louise Bendiktsen (tv) ásamt vinkonu sinni.

Blóðprufur voru teknar úr 20 karlmönnum í Sjøvegan til samanburðar en þau reyndust ekki passa við lífsýnið sem fannst á líkinu. Lögreglan vildi ekki skýra nánar frá hvar lífsýnið fannst en fjölmiðlar sögðu að Marie-Louise hefði verið nauðgað áður en hún var myrt og kveikt í húsinu.

Blóðprufurnar 20 urðu að 40 en enginn árangur. Nokkrum vikum síðar ákvað lögreglan að hefjast handa við umfangsmestu DNA-rannsókn sögunnar í Noregi. Allir karlmenn, 15 ára og eldri, sem hugsanlega voru í Sjøvegan um miðjan júlí voru beðnir um að skila inn hári til lögreglunnar til samanburðarrannsóknar. Lögreglan vonaðist til að fá samsvörun við sýnið sem fannst á líkinu. Um 2.000 sýni bárust og kostnaður við rannsóknina hljóp á milljónum.

En í maí 2001 kom í ljós að þessi mikla vinna var nánast til einskis. Lífsýnið frá vettvanginum hafði verið meðhöndlað á rangan hátt.

Eftir þetta miðaði rannsókninni lítið áleiðis og í október 2003 var henni formlega hætt. En málið var ekki gleymt og 20 árum eftir morðið gerðist svolítið sem varð til þess að lögreglan telur sig nú hafa haft hendur í hári morðingjans.

Teikning og Íraki í Þýskalandi

Málið var öðru hvoru tekið aftur til rannsóknar ef tilefni þótti til en árangurinn var lítill sem enginn. Lögreglan lét gera teikningu af manni sem hún taldi tengjast morðinu.

Á morðvettvanginum höfðu 12 hár fundist og reyndi lögreglan að finna út af hverjum þau voru. Lögreglan rannsakaði einnig ábendingar um karlmann frá Írak sem hafði horfið frá Sjøvegan eftir morðið. Hann birtist aftur í Þýskalandi 2017 eftir að hafa afplánað átta ára fangelsisdóm fyrir morðtilraun. Hann hafði reynt að stinga mann til bana.

Blaðaumfjöllun um morðið var mikil á sínum tíma.

En miðvikudaginn 20. júní 2018, tæpum 20 árum eftir morðið, dró loks til tíðinda. En það var hvorki Írakinn í Þýskalandi né maðurinn á teikningunni sem komu við sögu þegar flugvél, sem kom frá útlöndum, lenti á Gardermoen flugvellinum í Osló.

Í vélinni var 38 ára karlmaður frá Sri Lanka. Hann var 17 ára þegar Marie-Louise var myrt. Hann var einn hælisleitendanna sem hafði hjálpað henni við garðvinnuna. Hann hafði yfirgefið Sjøvegan eftir morðið. Á næstu árum hlaut hann dóma fyrir ránstilraun og grófan þjófnað. Honum var síðan vísað frá Noregi 2014. Hann fór síðan til Noregs á síðasta ári til að heimsækja ættingja en þá beið lögreglan hans en hún hafði fylgst með honum mánuðum saman.

Hann var handtekinn og ákærður fyrir nauðgun, morð og íkveikju. Á fréttamannafundi lögreglunnar kom fram að ítarleg yfirferð lögreglunnar á gögnum málsins hefði orðið til að sjónir beindust að þessum manni. Lögreglan hefur ekki viljað skýra nánar frá þessu nema hvað að DNA úr manninum svarar 100% til þess sem fannst á líki Marie-Louise.

En áður hafði komið fram að lögreglan hefði klúðrað lífsýninu í upphafi rannsóknarinnar. Hvernig getur hún þá hafa fengið fram fullkomna svörun? Norska ríkisútvarpið segir að ekki hafi fengist upplýsingar um það enn sem komið er en það mun væntanlega koma fram fyrir dómi en málið er nú fyrir dómi.

Hinn ákærði neitar sök. Hann skýrir þá staðreynd að sæði úr honum fannst á og í líki Marie-Louise með að þau hafi átt í ástarsambandi þegar hann var 17 ára og hún 59 ára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hrikalegt ástand í Dúbaí: Allt á floti og lúxusbílar á bólakafi

Hrikalegt ástand í Dúbaí: Allt á floti og lúxusbílar á bólakafi
Pressan
Í gær

Þessi vinsæli drykkur er verri en kaffi þegar kemur að því að valda andvöku

Þessi vinsæli drykkur er verri en kaffi þegar kemur að því að valda andvöku
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hversu oft þværðu ræktarfötin? – Þessu flaska flestir á

Hversu oft þværðu ræktarfötin? – Þessu flaska flestir á
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tæpu ári eftir handtökuna er ritari Heuermann ekki enn komin yfir áfallið – „Ég keypti þessar pitsur fyrir hann“

Tæpu ári eftir handtökuna er ritari Heuermann ekki enn komin yfir áfallið – „Ég keypti þessar pitsur fyrir hann“