fbpx
Sunnudagur 26.maí 2019
Pressan

Flugvélar sem hurfu sporlaust

Ritstjórn Pressunnar
Mánudaginn 22. apríl 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugsagan geymir ýmis dæmi um dularfulla, en umfram allt sorglega, atburði þó flugsamgöngur séu almennt með þeim allra öruggustu í heiminum. Nýlega fórust tvær flugvélar Boeing af tegundinni 737 MAX og eitt helsta fréttamál síðustu ára er hvarf vélar Malaysia Airlines, MH370, sem hvarf árið 2013. Breska blaðið Mirror tók saman lista yfir eftirminnileg og dularfull flugslys.

Hvarf í hringferðinni

Amelia Earhart, frumkvöðull innan fluggeirans, var fyrst kvenna til að fljúga yfir Atlantshafið. Árið 1937 gerði hún tilraun til að fljúga í kringum hnöttinn fyrst kvenna. Þann 2. júlí það ár hvarf vél hennar en um borð var einnig siglingafræðingurinn Fred Noonan. Síðast var vitað um ferðir hennar við Howland-eyju í Kyrrahafinu.

Mörgum kenningum hefur verið varpað fram um hvarfið. Flestir telja að vél hennar hafi einfaldlega orðið eldsneytislaus og brotlent í sjónum, en aðrir halda því fram að hún hafi verið njósnari fyrir Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta og verið handsömuð af Japönum. Hvað sem því líður hefur ekkert spurst til vélarinnar frá árinu 1937.

Skotin niður af Bretum?

Tónlistarmaðurinn Glenn Miller var vinsæll á fimmta áratug síðustu aldar og sumarið 1944 var hann á ferðalagi vítt og breitt um Bretlandseyjar ásamt hljómsveit bandaríska flughersins. Í desember var ætlunin að fljúga með lítilli rellu frá Englandi til Parísar. Síðast spurðist til vélarinnar yfir Ermarsundi, en hvernig hvarfið bar að er enn þann dag í dag ráðgáta. Enginn skortur hefur þó verið á kenningum. Sumir telja að Bretar hafi óvart skotið vélina niður, en á þessum tíma stóð seinni heimsstyrjöldin sem hæst. Þýski blaðamaðurinn Udo Ulfkotte, hjá Bild, hélt þeirri langsóttu kenningu fram að Miller hafi komist til Frakklands en einfaldlega dáið úr hjartaáfalli á vændishúsi í París.

Flug 19 og Bermúdaþríhyrningurinn

Þann 5. desember 1945 hurfu sex litlar flugvélar Bandaríkjahers sporlaust og þar með varð til goðsögnin um Bermúdaþríhyrninginn. Fimm þessara véla lögðu af stað nánast samtímis frá Fort Lauderdale í Flórída. Eftir að vélarnar höfðu verið á lofti í um einn og hálfan tíma tilkynntu flugmennirnir, hver á fætur öðrum, að þeir væru áttavilltir og gætu ekki borið kennsl á kennileiti fyrir neðan þá. Þrátt fyrir tilraunir til að vísa mönnunum rétta leið tókst það ekki og er talið að allar vélarnar hafi farist, en 14 voru um borð. Sjötta flugvélin, vél sem var send til að leita að vélunum fimm, hvarf einnig. Allir þrettán sem voru um borð í henni voru taldir af.

Dularfulli Morse-kóðinn

Mörgum spurningum var ósvarað þegar Star Dust-vél, í eigu breska flugfélagsins British South American Airlines (BSAA), hvarf í flugi milli Buenos Aires í Argentínu og Santiago í Chile. Þann 2. ágúst 1947 lagði vélin af stað og var ferðinni heitið yfir Andes-fjöll. Það er skemmst frá því að segja að vélin komst aldrei á áfangastað, en áður en hún hvarf barst frá henni Morse-kóðinn STENDEC. Æ síðan hafa getgátur verið uppi um þýðingu kóðans. Sumir halda því fram að geimverur hafi verið að verki en aðrir að vélin hafi verið sprengd vegna viðkvæmra gagna sem einn farþeganna var að fara með til Chile. 50 árum eftir hvarfið, árið 1997, fannst flak vélarinnar í Andes-fjöllum.

Flaug inn í storm

Önnur BSAA-vél, Star Tiger, hvarf á leið sinni frá Santa Maria á Asoreyjum til Bermúda snemma árs 1948. 25 farþegar voru um borð, en veður var vont þegar lagt var af stað. Áætlað var að flugið tæki tólf tíma og vegna háloftavinda flaug vélin tiltölulega lágt. Sterkir vindar gerðu það að verkum að vélina bar af leið og þurfti að fljúga inn í öflugan storm til að komast til Bermúda vegna hættu á eldsneytisskorti. Stærri vél af tegundinni Lancastrian flaug á undan vélinni og lenti hún heilu og höldnu. Hvorki sást tangur né tetur af Star Tiger-vélinni. Talið er að vélin hafi brotlent í sjónum vegna þess hve lágt hún flaug eða að hæðarmælir um borð hafi bilað.

Flugnúmerið 191

Þessi örgrein vísar ekki til tiltekinnar flugvélar heldur til flugnúmersins 191 og nokkurra atburða tengdum þessari tölu á undanförnum 40 árum eða svo. Eitt mannskæðasta flugslys í bandarískri flugsögu varð árið 1979 þegar vél American Airlines, með flugnúmerið 191, brotlenti nokkrum mínútum eftir flugtak í Chicago. Alls lést 271 í slysinu. Árið 1967 fórst flugvél af tegundinni X-15, með flugnúmerið 191, í tilraunaflugi með þeim afleiðingum að flugmaður vélarinnar lést. Árið 2012 fékk flugmaður vélar JetBlue Airways, með flugnúmerið 191, hræðslukast sem varð til þess að farþegar þurftu að binda hann niður. Nokkur flugfélög eru hætt að nota þetta flugnúmer, að sögn Mirror.

Rannsókn leiddi ekkert í ljós

Enn ein flugvél BSAA hvarf á flugi frá Bermúda til Jamaíku þann 17. janúar 1949. Vélin var sambærileg Star Tiger-vélinni sem talið er að hrapað hafi í sjóinn ári áður, en ólíkt henni lagði vélin af stað í björtu og góðu veðri. Einhverra hluta vegna átti vélin í miklum vandræðum með fjarskiptasamband. Vélin komst aldrei á áfangastað og leit að 20 farþegum og áhöfn var hætt átta dögum síðar. Rannsókn á hvarfinu leiddi ekkert í ljós, en Don Bennett, framkvæmdastjóri BSAA á þeim tíma, hélt því fram að báðum vélunum hafi verið grandað að yfirlögðu ráði. Þá sagði hann að Clement Atlee, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafi fyrirskipað að hvarf vélanna yrði ekki rannsakað frekar.

Sjálfsvíg aðstoðarflugstjóra

Brotlending vélar á vegum Egypt Airlines í Atlantshafi í október 1999 er sveipuð dulúð. Vélin lagði af stað frá John F. Kennedy-flugvellinum í New York og var ferðinni heitið til Kaíró í Egyptalandi. Ekki var vélin komin langt þegar hún brotlenti í sjónum úti fyrir ströndum Massachusetts með þeim afleiðingum að 217 létust. Gamil el-Batouty, aðstoðarflugmaður vélarinnar, hafði fengið áminningu fyrir kynferðislega áreitni frá framkvæmdastjóra EgyptAir, en svo vildi til að hann var í vélinni þegar hún fórst. El-Batouty hafði fengið þau skilaboð frá framkvæmdastjóranum að þetta yrði hans síðasta flug fyrir flugfélagið. El-Batouty á að hafa svarað um hæl að þetta yrði einnig síðasta flug framkvæmdastjórans. Talið er að þegar flugstjórinn hafi farið á klósettið hafi El-Batouty tekið vélina af sjálfstýringu og stýrt henni í hafið.

Mistök og bilun

Airbus 330-vél Air France hvarf yfir Atlantshafi þann 1. júní 2009 á leiðinni frá Brasilíu til Frakklands með 228 innanborðs. Samkvæmt úttekt sérfræðinga er talið að ískristallar hafi valdið því að sjálfstýring vélarinnar bilaði. Áhöfn vélarinnar reyndi að leysa vandamálið en það tókst ekki sem varð til þess að vélin hrapaði í sjóinn. 50 lík fundust fyrstu mánuðina eftir slysið, en svarti kassi vélarinnar fannst ekki fyrr en í maí 2011. 104 lík til viðbótar fundust í kjölfarið. Enn hafa jarðneskar leyfar 74 farþega um borð ekki fundist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Grannar munu berjast

Ekki missa af

Pressan
Fyrir 2 dögum

Sagðist ætla að gefa sig fram ef hann fengi 15 þúsund læk

Sagðist ætla að gefa sig fram ef hann fengi 15 þúsund læk
Pressan
Fyrir 2 dögum

Mormóni í replúblikanaflokknum kemur út úr skápnum: Reyndi að lækna samkynhneigðina

Mormóni í replúblikanaflokknum kemur út úr skápnum: Reyndi að lækna samkynhneigðina
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rannsaka hvort morð á tveimur transkonum tengist

Rannsaka hvort morð á tveimur transkonum tengist
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ekki verið jafn nærri kjarnorkustríði frá lokum síðari heimsstyrjaldar

Ekki verið jafn nærri kjarnorkustríði frá lokum síðari heimsstyrjaldar