fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Tvær unglingsstúlkur voru myrtar 2017 – Nú hefur lögreglan birt nýjar upplýsingar

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 23. apríl 2019 23:00

Abigail Williams og Liberty German

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglan í Delphi í Indiana í Bandaríkjunum boðaði til fréttamannafundar í gær. Þar var farið yfir rannsókn á morðunum á Abigail Williams, 13 ára, og Liberty German, 14 ára, sem voru myrtar þar 2017. Lögreglan hefur unnið hörðum höndum að rannsókn málsins síðan þá en hefur ekki enn tekist að hafa hendur í hári morðingjans. Í gær birti lögreglan nýjar upplýsingar sem hún vonast til að geti orðið til þess að málið leysist.

Ný teikning af morðingjanum var birt og einnig upptaka úr farsíma annarrar stúlkunnar. Douglas Carter, lögreglustjóri, ávarpaði morðingjann beint á fundinum og sagði meðal annars:

„Í rúmlega tvö ár hefur þú talið að við myndum aldrei skipta um rannsóknaraðferð en nú höfum við gert það. Við höfum líklega yfirheyrt þig eða einhvern sem stendur þér nærri. Við vitum að í þínum huga snýst þetta um vald. Þú vilt vita hvað við vitum. Dag einn færð þú að vita það.“

Tilkynnt var um hvarf stúlknanna í febrúar 2017. Þær áttu frí úr skóla og fóru í langa gönguferð. Degi eftir að tilkynnt var um hvarf þeirra fundust þær myrtar. Líkin fundust í skóglendi nærri Delphi, um tíu kílómetra norðvestan við Indianapolis. Lögreglan hefur ekki skýrt frá hvernig þær voru myrtar.

Ný teikning af morðingjanum.

Í upphafi rannsóknarinnar birti lögreglan hljóðupptöku úr síma annarrar stúlkunnar en á henni heyrist maður segja þeim að fara „niður brekkuna“. Allt frá 2017 hefur lögreglan yfirheyrt fjölda manns vegna málsins en enginn hefur verið handtekinn.

Lögreglan telur miklar líkur á að morðinginn búi nærri morðvettvanginum. Lögreglan birti nýja upptöku úr síma annarrar stúlkunnar í gær en á henni sést maður á gangi á járnbrautarbrú. Hún er sannfærð um að maðurinn á upptökunni sé morðinginn segir í frétt ABC News. Carter bað fólk um að horfa á upptökuna og virða fyrir sér göngulag mannsins og hugleiða hvort það kannist við það.

Lögreglan telur að morðinginn sé á aldrinum 18 til 40 ára og geti hugsanlega litið út fyrir að vera yngri en hann er.

225.000 dollurum hefur verið heitið í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku morðingjans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt