fbpx
Fimmtudagur 27.júní 2019
Pressan

Gervigreind vinnur þá bestu í Quake III

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 6. júní 2019 21:30

Quake III

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðin 20 ár hafa tölvur orðið betri og betri við að vinna okkur mannfólkið í tölvuleikjum. Fyrst var það IBM-tölvan Deep Blue, sem vann rússneska stórmeistarann Gary Kasparov í skák árið 1997. Árið 2016 tókst Google fyrirtækinu DeepMind að skapa gervigreindina, AlphaGo, sem vann heimsmeistarann í kínverska borðspilinu Go. Fyrr á þessu ári tókst annarri DeepMind gervigreind svo að vinna okkur mannfólkið í leiknum Star Craft II.

Í síðustu viku gat DeepMind svo enn einu sinni stært sig af því að gervigreindin þeirra hefði unnið manninn, að þessu sinni í hinum sígilda skotleik Quake II. Þetta er í fyrsta sinn sem tölva vinnur manneskju í flóknum 3D leik sem fjallar um samvinnu. Forbes.com greinir frá þessu.

En ólíkt skák, Go og Starfcraft II eru fleiri en tveir spilarar sem spila í einu í Quake III. Til að vinna leikinn þarf maður að geta unnið með liðsfélögum sínum. Þetta er í fyrsta sinn sem gervigreind hefur unnið okkur mannfólkið þar sem markmiðið er samvinna segja vísindamennirnir á bak við gervigreindina í vísindatímaritinu Science.

Til að vinna í leik þar sem spilað er í liðum er þó ekki nóg að hafa eina gervigreind til að spila, það þarf heilt lið. Þess vegna sköpuðu vísindamennirnir það sem þeir kalla röð „útsendara” (e. agent) eða „botta” (e. bots), sem lærðu að spila leikinn og gátu átt í samskiptum við sömu skilyrði og mennsku leikmennirnir. Til að bottarnir yrðu eins góðir í leiknum og mögulegt var notuðust vísindamenirnir við hugmyndir Darwins um náttúruval. Eftir hverja umferð voru lélegustu bottarnir teknir út og þeir bestu fengu að halda áfram. Stökkbreyttar útgáfur af þeim bestu voru svo settar inn í staðinn. Þannig þróuðust bottarnir og urðu betri og betri.

Til að byrja með voru bottarnir mjög lélegir, vísindamennirnir höfðu nefnilega ekki sagt þeim hverjar reglur leiksins voru. Einu upplýsingarnar sem þeir fengu var sama skjámyndin og mennsku spilararnir sáu.

Eftir um 45.000 leiki skildu bottarnir bara hugmyndina á bak við leikinn, eftir um 100.000 leiki gátu þeir unnið meðal góða spilara og eftir um það bil 200.000 leiki gátu bottarnir svo unnið þá bestu í heimi. Eftir það urðu þeir bara betri og betri, fyrir lok verkefnisins höfðu bottarnir spilað um 450.000 leiki og voru orðnir það góðir að mennsku spilararnir gátu bara unnið ef þeir unnu með botta.  Mennirnir eru þó ennþá betri en gervigreindin í sumum hlutum leiksins, mennirnir eru til dæmis betri leyniskyttur.

Niðurstöður þessa verkefnis sýna að gervigreind er alltaf að verða betri og betri og benda til þess að í framtíðinni muni hún geta leyst flókin verkefni þar sem samvinna skiptir máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af