fbpx
Fimmtudagur 27.júní 2019
Pressan

Mikil reiði í Ísrael eftir að starfsmaður El Al var rekinn – Sá sami og lét Hatara fá léleg sæti í flugvélinni heim

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 7. júní 2019 07:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísraelska flugfélagið El Al hefur rekið einn starfsmann sinn fyrir Facebookfærslu þar sem hann lét skoðun sína á framlagi Hatara í Eurovision í ljós. En ekki nóg með það því þessi sami starfsmaður sá til þess að meðlimir Hatara fengu léleg sæti í flugvélinni þegar þeir flugu heim og sátu aðskildir. Þetta nefndi hann einnig í Facebookfærslunni.

Á þriðjudaginn var skýrt frá því á Channel 12 sjónvarpsstöðinni að viðkomandi starfsmaður hefði verið rekinn. Sá, eða öllu heldur sú, hafði sett mynd inn á lokaðan Facebookhóp starfsmanna El Al þar sem hún sýndi hvernig liðsmönnum Hatara hafði verið dreift um vélina og þeim úthlutað sætum aftast. Þessari færslu var síðan lekið og hún birt víða á Facebook sem og í fjölmiðlum.

„Svona verður farið með íslensku fulltrúana.“

Skrifaði hún með myndinni. Þetta var gert til að hefna fyrir stuðning Hatara við málstað Palestínumanna. Times of Israel skýrir frá þessu. Fram kemur að þegar liðsmenn Hatara hafi séð þessa Facebookfærslu eftir heimkomuna hafi þeir tilkynnt að þeir íhuguðu að kvarta við El Al vegna málsins.

Í kjölfar þess að skýrt var frá brottrekstri starfsmannsins birti hægrisinnaði aðgerðarsinninn og rapparinn „The Shadow“ myndband af sér þar sem hann kveikti í viðskiptakorti sínu hjá El Al. Hann hvatti aðra til að gera það sama ef flugfélagið endurskoðaði ekki ákvörðun sína. Mikil umræða hefur síðan átt sér stað í Ísrael vegna brottrekstursins.

Times of Israel segist hafa staðfestar heimildir fyrir að konan hafi verið rekin úr starfi en það hafi ekki verið vegna sætaskipanar Hatara heldur vegna þess að hún hafi brotið reglur El Al með því að birta ljósmynd af tölvuskjá þar sem sætaskipan í umræddi flugvél sést. Með því hafi hún birt viðkvæmar viðskiptaupplýsingar og brotið gegn friðhelgi farþega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af