fbpx
Fimmtudagur 27.júní 2019
Pressan

13 ára drengur var handtekinn fyrir fimm árum – Nú stendur til að taka hann af lífi fyrir „glæpinn“

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 11. júní 2019 20:00

Murtaja Qureiris

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir fimm árum var Murtaja Qureiris handtekinn, aðeins 13 ára að aldri, fyrir að hafa verið í fararbroddi um 30 ungra drengja og pilta sem hjóluðu um götur í Sádi-Arabíu og kröfðust mannréttinda til handa íbúum landsins. Í flestum siðmenntuðum ríkjum hefði fólk ekki kippt sér upp við mótmæli sem þessi og þau hefðu líklega einna helst vakið athygli fyrir ungan aldur mótmælenda og þeirrar staðreyndar að þeir voru á reiðhjólum.

En í Sádi-Arabíu er staðan allt önnur. Mannréttindi eru fótum troðin í landinu og valdhafar gefa engan afslátt þegar fólk gagnrýnir þá og stjórnarfarið. Það hefur Qureiris fengið að reyna á eigin skinni.

Hann var aðeins 10 ára þegar hann tók þátt í mótmælunum. Í umfjöllun CNN kemur fram að á upptöku af mótmælunum sjáist Qureiris með hinum drengjunum og piltunum. Hann heldur á gjallarhorni og hrópar: „Fólkið krefst mannréttinda!“

Mótmælin fóru fram í austurhluta Sádi-Arabíu þegar hið svokallaða Arabíska vor stóð sem hæst 2011. Þremur árum eftir mótmælin var Qureiris handtekinn, 13 ára að aldri. Hann var þá á leið til Bahrain með fjölskyldu sinni. Honum var stungið í steininn og þar hefur hann dúsað síðan. Hann varð þá yngsti pólitíski fanginn í Sádi-Arabíu sem vitað er um. En nú hefur hann verið dreginn fyrir hryðjuverkadómstól og á dauðadóm yfir höfði sér. Ef það verður raunin verður hann hálshöggvinn.

Hann er meðal annars ákærður fyrir að vera félagi í „hryðjuverkasamtökum öfgamanna“ og að hafa tekið þátt í „ofbeldisfullum mótmælum gegn stjórnvöldum“. Þetta eru alvarlegar ákærur og til þess fallnar að tryggja að hann verði dæmdur til dauða.

Starfshópur Sameinuðu þjóðanna um gæsluvarðhaldsvist segir að umrædd mótmæli hafi ekki verið ofbeldisfull heldur mjög friðsöm. Þá er einnig gagnrýnt að margar játningar Qureiris voru knúnar fram hjá honum þegar hann var 13 ára. Hann segist hafa verið neyddur til að játa eitt og annað þá.

En það þarf ekki að koma umheiminum á óvart ef hann verður dæmdur til dauða og tekinn af lífi enda er dauðarefsingu óspart beitt í Sádi-Arabíu sem er meðal þeirra ríkja heims sem beita dauðarefsingum einna mest. Í apríl voru til dæmis 37 dæmdir til dauða í landinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af