fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2019  |
Pressan

Hin norska Brynhild flutti til Ameríku – Svo drap hún 40 menn og fjölda barna

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 16. júní 2019 21:30

Skipti um nafn Brynhild varð að Belle.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún var ekki dæmigerður raðmorðingi í þeim skilningi að hún hafi notið þess að drepa eða að sjá fólk þjást. Fyrir henni jafngilti hvert barn sem hún drap peningum í kassann.“

Þessi saga hefst eins og margar aðrar. Brynhild Paulsdatter Størseth fæddist við bágar aðstæður á litlum bóndabæ, þann 11. nóvember 1859. Bærinn sem hét Størsethgjerdet tilheyrði stórbýlinu Størseth í Noregi. Brynhild var yngst átta barna. Þegar hún var unglingur varð hún þunguð eftir ríkan bóndason frá einu stórbýlanna í nágrenninu.

Kvöld eitt þegar Brynhild var á dansleik var hún slegin svo fast í magann að hún missti fóstrið. Maðurinn sem sló hana mun hafa verið faðir barnsins, en hann var aldrei ákærður fyrir verknaðinn. Stuttu síðar lést hann af því sem var lýst sem krabbameini í maga, fólkið í þorpinu velti því þó fyrir sér hvað hefði komið fyrir manninn.

 

Skipti um nafn, Brynhild varð Belle

Eftir fósturmissinn á Brynhild að hafa breyst mikið. Eins og margt ungt fólk á þessum tíma ákvað hún að freista gæfunnar hinum megin Atlantshafsins og vann sem þjónustustúlka í þrjú ár til þess að safna fyrir farmiðanum.

Árið 1881 settist hún að í Chicago og giftist fljótlega Norðmanninum Mads Ditlev Anton Sørensen. Hún skipti um nafn og varð Belle Sørensen. Saman ráku hjónin verslun en reksturinn gekk ekki sem skyldi. Dag einn brann verslunin og hjónin fengu greiddar tryggingabætur.

Samkvæmt manntali (United States Census) sem gert var árið 1900 áttu Belle og Mads fjögur börn, Caroline, Axel, Myrtle og Lucy. Caroline og Axel létust bæði við grunsamlegar aðstæður (árin 1896 og 1898), eftir dauða barnanna fékk Belle greiddar bætur frá tryggingunum. Það hefur aldrei verið sannað að Belle hafi í raun verið líffræðileg móðir barnanna fjögurra, talið er að hjónin hafi tekið börnin að sér þegar foreldrarnir gátu ekki séð um þau. Þau báru einnig ábyrgð á hinni tíu ára gömlu Jenny Olsen, en faðir hennar er talinn hafa verið norskur sjómaður.

 

Eiginmennirnir létust skyndilega

  1. júlí árið 1900 lést Mads einnig við grunsamlegar kringumstæður. Í fyrstu var talið að eitrað hefði verið fyrir honum en læknir fjölskyldunnar komst að lokum að þeirri niðurstöðu að hjartasúkdómur hefði dregið hann til dauða. Belle fékk einnig greidda háa peningaupphæð eftir dauða Mads, sem gerði henni kleift að kaupa stórt býli í La Porte í Indiana. Hún flutti þangað með eftirlifandi börnum sínum; Myrtle og Lucy og fósturdótturinni Jenny.

Þann 1. apríl 1902 giftist Belle Norðmanninum Peter Gunness og varð við það Belle Gunness. Peter var ekkill og átti tvær dætur. Önnur þeirra lést skyndilega þegar hún var ein með Belle og áður en leið á löngu lést Peter einnig. Hann fannst í eldhúsinu og hafði verið sleginn fast í hnakkann. Samkvæmt Belle og dætrunum lést hann eftir að hafa fengið hakkavél í höfuðið. Dóttir Peter, Swanhild, var send til frænda síns í Wisconsin og mun hafa verið eina barnið sem lifði Belle.

Árið 1903 tók Belle að sér barn, Philip að nafni. Á sama tíma réð hún Ray Lamphere, einhleypan mann, til að vinna á bænum. Á sama tíma bjó Belle til nýja áætlun, hún birti auglýsingu í blaðinu þar sem hún auglýsti eftir einhleypum norskum mönnum til að búa með henni og börnum hennar á bænum. Þetta tilboð freistaði margra Norðmanna sem höfðu komið til Bandaríkjanna til að freista gæfunnar og margir byrjuðu að skrifast á við ekkjuna.

 

Sendi ástarbréf til biðils

Eina krafan sem Belle setti fram var að þeir myndu koma til býlisins með peninga saumaða inn í föt sín. Margir Norðmenn komu til býlisins, þar á meðal John Moe, George Anderson, Ole B. Budsberg og Andrew Helgelien. Á býli Helgelien í Suður-Dakóta fannst handskrifað bréf frá Belle til Andrew, dagsett 13. janúar 1908.

„Til besta vinar míns: Engin kona er hamingjusamari en ég er nú. Ég veit að þú þarft að koma til mín til að verða minn. Bréfin þín sýna mér að þú ert maðurinn sem ég vil eignast. Það tekur ekki svo langan tíma að átta sig á því að manni líkar við einhvern og mér líkar best við þig af öllum í heiminum. Ég veit það. Við verðum ein, hvort með öðru – getur þu hugsað þér nokkuð betra? Ég er alltaf að hugsa um þig. Þegar ég heyri nafnið þitt er það þegar elsku börnin tala um þig eða þegar ég heyri sjálfa mig segja það eins, það hljómar eins og tónlíst í eyrum mér. Hjarta mitt slær fyrir þig, Andrew minn. Ég elska þig. Búðu þig undir að vera hér að eilífu.“

Þetta hlýtur að hafa hljómað eins og tónlist í eyrum Andrew því hann tók öll sín verðmæti með sér og flutti til Belle og barnanna í La Porte. Þegar þangað kom fór Belle með hann í bankann til að skipta 2900 dollara ávísuninni (sem voru mjög miklir peningar á þessum tíma) sem hann hafði tekið með sér. Hann hvarf svo nokkrum dögum síðar.

Á þessum tíma hafði Belle látið líta út fyrir að hún væri í vandræðum með vinnumanninn, Ray Lamphere, sem á að hafa verið yfir sig ástfanginn af henni og afbrýðisamur út í alla biðlana sem komu til býlisins. Hún var hrædd um að hann myndi brenna býlið og drepa þar með hana og börnin hennar. Hún reyndi að fá réttinn í La Porte til að dæma hann veikan á geði, en honum var sleppt og hann var dæmdur heilbrigður.

 

Kvenmannslík fannst í brunarústum á býli Belle

En aðfaranótt 28. apríl 1908 gerðist það sem Belle hafði „óttast“, býlið brann og sá eini sem komst lífs af var vinnumaðurinn, Joe Maxon. Í brunarústunum fundust lík barnanna þriggja, Myrtle, Lucy og Philip ásamt höfuðlausu líki kvenmanns. Það var ályktað að þetta væri Belle en þar sem höfuðið fannst aldrei var ekki hægt að færa sönnur á það hver konan var. Eitt var þó víst, þeir sem þekktu Belle voru sannfærðir um að líkið væri ekki af Belle Gunness sem var 183 cm á hæð og vó 90 kíló. Líkið var af mun fíngerðari konu.

Þrátt fyrir þessar efasemdir lýsti lögreglustjórinn Smutzer því yfir að hún hefði látist í brunanum. Ray Lamphere var strax grunaður um íkveikjuna og eftir löng réttarhöld var hann dæmdur fyrir verknaðinn. Hann lést af berklum eftir eitt ár í fangelsi.

Asle Helgelien fékk Smutzer lögreglustjóra og menn hans til að grafa á býlinu, þar sem hann var sannfærður um að líkamsleifar bróður hans væru á býlinu. Vinnumaðurinn sem var ráðinn eftir að Ray var rekinn hafði nefnilega sagt frá því að  Belle hefði oft beðið hann um að fylla upp í stórar holur á jörðinni, Belle hafði útskýrt það með því að hún hefði verið að henda rusli.

 

Fleiri lík finnast á býlinu

Það kom svo í ljós að það var ekki rusl sem hún hafði verið að grafa, lík fjölda manna, kvenna og barna, fundust við uppgröftinn, þar á meðal fósturdóttirin Jenny Olsen, en Belle hafði sagt að Jenny hefði farið til Kaliforníu 1906 til að læra lögfræði. Lík Andrew Helgelien fannst einnig, en bróðir hans, Asle, hafði sett sig í samband við Belle eftir hvarf Andrew, en hún sagðist ekki vita hvar hann væri, hann hefði sennilega farið aftur til Noregs.

Alls fundust líkamsleifar tæplega 40 manns á býlinu, hægt var að bera kennsl á nokkur þeirra en ekki öll. Stóra spurningin eftir þetta allt saman var: Hvar er Belle? Þrátt fyrir að hún hafi verið lýst látin árið 1908 töldu margir sig hafa séð hana eftir það. Ráðgátan um örlög norska raðmorðingjans er enn óleyst. Fólk hefur velt því fyrir sér hvort hún hafi sviðsett andlát sitt og þá hvað hafi orðið af henni. Önnur stór spurning í þessu máli er, hve marga drap hún? Allt bendir til þess að hún hafi drepið börnin sín þrjú og hafi komið höfuðlausa kvenlíkinu fyrir í húsinu fyrir brunann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Tveggja ára stúlka öskraði – Síðan sá móðirin hver læddist inn í herbergi hennar

Tveggja ára stúlka öskraði – Síðan sá móðirin hver læddist inn í herbergi hennar
Pressan
Í gær

Kynlífsdúkkur valda vanda – Ógna tilvist heillar þjóðar

Kynlífsdúkkur valda vanda – Ógna tilvist heillar þjóðar
Pressan
Í gær

Starfsmaður heimahjálpar grunaður um að hafa nauðgað níræðri konu

Starfsmaður heimahjálpar grunaður um að hafa nauðgað níræðri konu
Pressan
Í gær

Úlfum fer fjölgandi í Danmörku

Úlfum fer fjölgandi í Danmörku
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ný lög kveða á um að barnaníðingar og nauðgarar skuli vanaðir

Ný lög kveða á um að barnaníðingar og nauðgarar skuli vanaðir
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fundu 50 ára gamalt flöskuskeyti

Fundu 50 ára gamalt flöskuskeyti