fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Rannsaka þrjú mál er tengjast dánaraðstoð í Hollandi – Verða rannsökuð ofan í kjölinn

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 24. júní 2019 07:59

Andlát Noa Potthoven kom mikilli umræðu af stað í Hollandi um dánaraðstoð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá 2002 hefur verið heimilt að veita fólki dánaraðstoð í Hollandi. Það er að heilbrigðisstarfsmenn geta aðstoðað fólk við að binda enda á líf sitt. Í byrjun mánaðar var mikið fjallað um mál 17 ára stúlku sem átti að hafa fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt eftir að hafa verið nauðgað ítrekað. Fjölmiðlar um allan heim fjölluðu um málið. Sagan reyndist vera ósönn en hún varð til þess að umræða um dánaraðstoð fór á flug í Hollandi.

Í skýrslu frá stjórn þeirrar stofnunar sem rannsakar hvert einasta mál tengt dánaraðstoð í Hollandi kemur fram að nú eigi að rannsaka þrjú mál frá 2017 og 2018 ofan í kjölinn vegna gruns um að lög hafi verið brotin. Saksóknarar munu annast rannsóknina. The Guardian skýrir frá þessu.

Í lögunum frá 2002 er kveðið á um að fólk eigi rétt á virkri dánaraðstoð þegar það glímir við óbærilegar þjáningar og ekkert útlit er fyrir að ástandið batni. Sjúklingurinn þarf sjálfur að biðja um dánaraðstoð. Börn niður í 12 ára aldur mega fá dánaraðstoð ef foreldrar þeirra samþykkja það. 16 og 17 ára ungmenni mega sjálf biðja um dánaraðstoð en foreldrar þeirra verða að fá upplýsingar um það. Lögin kveða einnig á um að auk álits læknis sjúklingsins verði annar læknir að fara yfir málið.

Í einu af málunum þremur er sú spurning uppi hvort álit annars læknis hafi verið aflað varðandi dánaraðstoð við eldri konu sem var með lungnakrabbamein og þunglyndi. Í öðru máli var það kona á sjötugsaldri með Alzheimers sem að mati óháðs ráðgjafa þjáðist ekki nægilega mikið til að eiga rétt á dánaraðstoð. Þriðja málið snýst um konu á níræðisaldri sem þjáðist af slitgigt en neitaði meðferð við henni og vildi bara fá aðstoð við að deyja.

Mál 17 ára stúlkunnar, sem nefnt var hér að ofan, og kom umræðunni af stað tengist dánaraðstoð þrátt fyrir að stúlkan hafi ekki fengið slíka aðstoð. Hún hét Noa Pothoven. Þegar hún var barn var henni nauðgað þrisvar sinnum. Þetta olli því að hún glímdi við þunglyndi, áfallastreituröskun og lystarstol. Fyrir mistök sögðu margir fjölmiðlar að hún hefði fengið dánaraðstoð en í samtali við CNN skýrðu foreldrar hennar frá því að hún hefði látist úr næringarskorti því hún var hætt að borða og drekka. Hún hafði áður sett sig í samband við læknastofu, sem veitir fólki dánaraðstoð, en var neitað um slíka aðstoð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt