fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Pressan

Hálft tonn af kókaíni rak á land

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 31. maí 2019 21:00

Kókaín finnst stundum á reki. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar smygl rak á land á Azoreyjum árið 2001 grunaði engan að það myndi hafa mikil áhrif á líf eyjaskeggja og hvað þá enn, tæpum tuttugu árum síðar. Um hálft tonn af kókaíni var að ræða. Ekki leið á löngu frá strandinu þar til kókaínið flæddi nánast um götur eyjunnar Sao Miguel. Efnið var mjög sterkt og enn þann dag í dag hefur þetta strand og það sem gerðist í kjölfarið mikil áhrif á líf eyjaskeggja.

Óvæntur sjóreki
Sao Miguel á Azoreyjum.

Það var um hádegisbil þann 6. júní 2001 sem heimamenn í Pilar da Bretanha, sem er sókn á norðvesturtanga Sao Miguel, sáu 40 feta hvíta skútu sem rak stjórnlaust nærri klettabelti. Þeir höfðu aldrei séð bát af þessari stærð svona nærri þessum hluta strandlengjunnar en þar er grunnt, sterkir straumar og hnífbeitt sker. Þeir töldu að hér hefði viðvaningur villst. En í raun var vanur sjómaður við stýrið. Síðar fundust tvö ítölsk vegabréf, spænskt vegabréf og fleira í fórum hans. Á öllum þessum skilríkjum var mynd af þessum sama manni, 44 ára með veðraða húð og dökkt hrokkið hár. En nöfnin voru ólík í öllum þessum skilríkjum. Frá því í mars og þar til þennan júnídag hafði hann siglt tvisvar yfir Atlantshafið frá Kanaríeyjum til Venesúela og aftur til baka. Hann átti að sigla skútunni til meginlands Spánar en heimferðin hafði verið erfið, vond veður og skútan hafði orðið fyrir skemmdum. Hann vissi að hann myndi ekki ná til Spánar án viðkomu svo hann setti stefnuna á Sao Miguel sem er stærsta eyjan í Azoreyjaklasanum sem tilheyrir Portúgal. En hann gat ekki siglt beint inn í höfnina þar því ef yfirvöld myndu kanna skútuna hans myndu þau finna mikið magn af hreinu kókaíni sem hann var að flytja fyrir spænskt glæpagengi frá Venesúela til Spánar. Hann varð að losa sig tímabundið við farminn og því sigldi hann meðfram ströndinni til að leita að felustað fyrir kókaínið en verðmæti þess hljóp á sem nemur milljörðum íslenskra króna.

Fjöldi hella er við strendur Sao Miguel. Maðurinn sigldi að helli nærri Pilar da Bretanha og byrjaði að afferma skútuna. Kókaínið var pakkað inn í plast og voru pakkarnir mörg hundruð. Hann notaði net og keðjur til að þyngja pakkana og sökkti þeim í sjóinn. En fljótlega versnaði veðrið og sjórinn ókyrrðist og kókaínpakkarnir losnuðu úr festingum sínum og byrjaði að reka á land.

Fámennt samfélag

Á Azoreyjum búa um 140.000 manns. Á Sao Miguel hafa flestir atvinnu af sjávarútvegi og landbúnaði en fjölmargir vinna ekki og fá bætur frá hinu opinbera. Fólk lifði sínu venjulega lífi en þegar hálft tonn af kókaíni rak á land hafði það mikil áhrif á Sao Miguel. Daginn eftir að fyrst sást til skútunnar fann veiðimaður krossfisk sem var þakinn plasti. Undir plastinu fann veiðimaðurinn efni sem honum fannst líkjast hveiti en það lak úr pakkanum. Hann hringdi í lögregluna.

Á næstu klukkustundum fundu lögreglumenn 270 pakka af hreinu kókaíni eða 290 kíló í heildina. Þetta var bara fyrsti skammturinn sem fannst. rúmlega viku síðar fundust 158 kíló til viðbótar í helli nærri Pilar da Bretanha. Tveimur dögum síðar fundust 15 kíló til viðbótar á strönd hinum megin á eyjunni. Á hálfum mánuði fundust rétt tæplega 500 kíló. En það voru ekki allir sem létu lögregluna vita þegar þeir fundu kókaín. Margir heimamenn gerðust nú fíkniefnasalar og fluttu efnið á milli staða í mjólkurbrúsum, málningardollum og sokkum. Þá gengur sú saga á Sao Miguel að tveir sjómenn hafi séð þegar skipstjóri skútunnar kastaði kókaíninu í sjóinn og hafi þeir náð miklu magni upp. Ekki er vitað hversu miklu en miklum sögum fer af sölu þeirra á efninu. Lögreglan óttaðist að umfangsmikil kókaínsala færi fram á eyjunum.

Áður en þetta gerðist hafði kókaín verið sjaldséð á eyjunni. Heróín og hass var algengara en kókaín var eiturlyf elítunnar enda var það dýrt.

 

Antonino Quinci
Óheppinn kókaínsmyglari.

Grunlaus

Skipstjóri skútunnar sigldi til hafnar og hafði enga hugmynd um að lögreglan væri farin að fylgjast með honum. Upplýsingar frá heimamönnum urðu til þess að lögreglan vissi að hér var smyglarinn á ferð. Þann 8. júní kom Ítali, Vito Rosario Quinci, til skipstjórans og hitti hann í skútunni þar sem hún lá í höfn. Vito reyndist vera tengiliður skipstjórans við spænska smyglhringinn sem skipstjórinn starfaði fyrir. Í ljós kom að Vito og skipstjórinn, sem heitir Antonino Quinci, eru frændur.

Smyglhringurinn hafði keypt skútuna fjórum mánuðum áður en hún kom til Azoreyja. Rannsókn málsins leiddi í ljós að tvær aðrar skútur voru einnig í ferðum á milli Evrópu og Suður-Ameríku með kókaín.

Antonino og Vito voru handteknir eftir að þeir höfðu farið að staðnum þar sem Antonino hafði hent kókaíninu í sjóinn. Í fyrstu var Antonino mjög samvinnuþýður og ræddi óhikað við lögregluna en daginn eftir hætti hann öllu samstarfi og þvertók fyrir aðild að málinu. Lögreglan telur að hann hafi verið hræddur þar sem hann átti tvö ung börn og unnustu og þar sem hann hafði týnt hálfu tonni af kókaíni, sem aðrir áttu, hafi hann ekki þorað að tala. Eða þá að hann taldi sig geta sloppið við saksókn ef hann segði ekkert.

Vildi komast í burtu

Antonino var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á málinu. Kókaín hélt áfram að reka á fjörur og allt flóði bókstaflega í kókaíni á eyjunni. Auk þeirra tæpu 500 kílóa sem lögreglan hafði lagt hald á taldi hún að 200 kíló til viðbótar væru í umferð á eyjunni. Sjómenn fundu mikið af efninu og seldu og ekki var óalgengt að kókaínið væri selt í kílóaskömmtum. Rannsóknir á efninu leiddu í ljós að það var 80% hreint sem er miklu hreinna og sterkara en það kókaín sem venjulega er til sölu á götum úti. Þetta gerði að verkum að fólk ánetjaðist efninu fljótt. Margir þeirra sem keyptu þetta kókaín og prófuðu vissu ekki hvað þeir voru með í höndunum. Afleiðingarnar voru hræðilegar. Fjöldi fólks leitaði til lækna vegna hjartsláttartruflana eða skyndilegs meðvitundarleysis. Sumir lifðu þetta ekki af.

En Antonino sat ekki auðum höndum í fangelsinu því hann reyndi sitt besta til að sleppa á brott frá Sao Miguel. Tíu dögum eftir handtökuna náði hann að flýja úr fangelsinu með því að klifra yfir gaddavírsgirðinguna sem umlukti það. Hann komst yfir hana og ók á brott á skellinöðru. Hann leitaði skjóls hjá heimamanni úti í sveit og dvaldi þar næstu tvær vikur. Þeim varð ágætlega til vina. Antonino beið sífellt eftir að samverkamenn hans kæmu  á annarri skútu til að sækja hann en úr því varð ekki. Um tveimur vikum eftir flóttann gerði lögreglan húsleit hjá heimamanninum og fann Antonino fyrir algjöra tilviljun. Lögreglan var á höttunum eftir fíkniefnum hjá heimamanninum og hafði engar upplýsingar né grun um að Antonino væri þar. Algjör heppni, eins og einn lögreglumaðurinn sagði síðar.

Kókaín
Eyjan varð ekki söm.

Gjörbreytti mannlífinu

Á örfáum vikum tókst Antonino að gjörbreyta lífi íbúa Sao Miguel. Áhrifanna gætti strax og þeirra gætir enn. Portúgölsk stjórnvöld breyttu fíkniefnalöggjöfinni 2001 og gerðu vörslu og neyslu ólöglegra fíkniefna refsilausa. Áherslan var í staðinn lögð á forvarnir og endurhæfingu fíkla.

En á Sao Miguel færðist fíkniefnaneysla mjög í vöxt í kjölfar rekans og nú eru margir langt leiddir fíkniefnaneytendur á eyjunni. Aðrir auðguðust mjög á kókaíninu sem þeir fundu og settu peningana í uppbyggingu löglegra viðskipta á borð við kaffihús. Enn aðrir voru ekki svona heppnir og létu lífið af völdum fíkniefnaneyslu.

Margir fíkniefnaneytendur segja að vegna þess hversu sterkt kókaínið var hafi þeir byrjað að nota önnur fíkniefni til að draga úr fráhvarfseinkennunum. Heróín kemur þar mikið við sögu en það er sent til eyjunnar, oft með pósti.

Antonino var dæmdur í 10 ára fangelsi. Hinar skúturnar tvær voru stöðvaðar í júlí 2001 af spænsku lögreglunni.

Evrópulögreglan Europol segir að Azoreyjar komi nú mikið við sögu í fíkniefnasmygli á milli Suður-Ameríku/Karabíska hafsins og Evrópu. Smyglararnir nota eyjarnar sem viðkomustað á leið sinni til Evrópu. Fíkniefnin eru oft flutt yfir í fiskibáta eða hraðbáta sem sigla með þau til meginlands Portúgals eða Spánar. Í september á síðasta ári fundust rúmlega 800 kíló af kókaíni um borð í hraðbáti sem var stöðvaður nærri Azoreyjum. Hann sigldi undir frönskum fána.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Móðir ákærð – Hótaði barnsföður sínum að birta klámfengið efni

Móðir ákærð – Hótaði barnsföður sínum að birta klámfengið efni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Norður-Kórea er betur undirbúin undir stríð en nokkru sinni áður

Norður-Kórea er betur undirbúin undir stríð en nokkru sinni áður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum

Fundu bát sem var fullur af rotnandi líkum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?

Kannabis er orðið að milljarðaiðnaði í Bandaríkjunum – Hvaða áhrif hefur efnið á heilsu fólks?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Kynlífspartý, fíkniefni, Viagra og morð – Kaþólska kirkjan tengist vafasömum málum

Kynlífspartý, fíkniefni, Viagra og morð – Kaþólska kirkjan tengist vafasömum málum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lögreglukonan sem réðst ein til atlögu gegn stungumanninum í Sydney – „Ég var bara að vinna mína vinnu“ – Nýjar upplýsingar um morðingjann vekja óhug

Lögreglukonan sem réðst ein til atlögu gegn stungumanninum í Sydney – „Ég var bara að vinna mína vinnu“ – Nýjar upplýsingar um morðingjann vekja óhug